föstudagur, desember 29, 2006

nú er ég semsagt stödd á milli jóla og nýárs.
þetta hefur allt gengið skrambi vel. pakkaflóðið kæfði börnin á aðfangadag og til að bæta bleiku ofaná rautt mætti mexíkanski jólasveinninn með pakka á aðfaranótt jóladags. börnin mín heppin að græða eitt stykki jólasvein bara af því að ég valdi mér svoleiðis maka. sem er gott og blessað.
við erum búin að fara með gestina okkar í nokkrar sundlaugar og í augnablikinu eru þau í sinni annari ferð í lónið bláa sem þeim þykir svo unaðslegt og æði. ég sjálf er ekki eins hrifin, enda enn að reyna að lagfæra á mér hárið eftir síðustu ferð.
nú og við bökuðum og skreyttum piparkökur og eyddum um sex klukkustundum í smáralind og öðru eins í kringlunni og á laugavegi. mig langar ekki aftur í smáralind í heilt ár eftir þennan skammt.
venjulega þegar ég hef átt leið í verslunarklasa þesskonar hef ég einbeitt mér að því að klára þau verkefni sem ég hef einsett mér að leysa í þeim búðum sem ég þykist þurfa að heimsækja. svo er ég farin heim. tekur yfirleitt ekki meira en rúman klukkutíma í mesta lagi.
sagan er önnur þegar ferðast er með kaupóðri lítilli útlendingu sem þykir allt æðislegt og frábært og spennandi og fallegt sem hægt er að kaupa, enda hvíld frá þreyttu búðunum heima í mexíkó. þegar þessi litla kona er á landinu drattast ég inní búðir sem ég hef aldrei á ævinni heimsótt og skoða hluti sem ég hefði annars aldrei séð, enda fullt af tíma til að drepa á meðan beðið er eftir kaupakonunni. það var ekki fyrr en undanfarna daga sem ég hef í raun séð allt það sem verslunarmiðstöðvarnar og laugavegurinn hafa uppá að bjóða. og þá meina ég allt.
hún er hörku búst fyrir efnahag þjóðarinnar, sérstaklega þar sem hún gleymir stundum að fá tax-free miðann eða hefur týnt kvittununum áður en hún dregur mig með sér aftur í búðirnar til að fá endurgreiðslumiða sem hún gleymdi.
maðurinn hennar og mágur minn ætti skilið þolinmæðiverðlaun nóbels.
það góða við þetta alltsamant er þó skemmtilegur félagsskapur og það hvað hún er fjári gjafmild...hehehe.... börnin mín og við höfum verið að eignast hluti sem ég persónulega hefði aldrei tímt að kaupa, en ég er eins og skrooge gamli við hliðina á blessaðri stúlkunni. samt er ég bara hagsýn að eigin mati, ekki nízk. (með zetu)
eins gott að hún les ekki íslensku....muahahahahahaha......

laugardagur, desember 16, 2006

jæja þá.
það er farið að sjást í endann á ,,að gera" listanum. nú á ég bara eftir að kaupa jólagjafir, pakka þeim inn, skrifa og senda jólakort, klára að gera fínt, taka á móti útlendingunum og halda jól. já og fara að horfa á fm belfast.
kökusneið.

ég las flugdrekahlauparann um daginn. mér þykir hún góð.
ég er samt ekki nærri því eins dugleg við að lesa og ég vildi vera.
ég er ekki nærri því eins dugleg við margt og ég vildi vera. hmmm.....
ég er ekki nógu dugleg við að læra að elda mat og nota uppskriftir til að fá smá fjölbreytni í matseðilinn.
ég er ekki nógu dugleg við að fara í leikhús.
ég er ekki nógu dugleg við að skrifa og lesa.
ég er ekki nógu dugleg við að vera uppfinningasöm og skemmtileg mamma.
ég er ekki nógu dugleg við að skipuleggja draslið í kringum mig.
ég er ekki nógu dugleg við að sýna ást og umhyggju.
ég er ekki nógu dugleg við að hringja í fólk.
ég er ekki nógu dugleg við að bjóða fólki í heimsókn eða mat.
ég er ekki nógu dugleg við að fylgjast með fréttunum og hafa skoðun.
ég er ekki nógu dugleg við að læra nýja hluti.
ég er ekki nógu dugleg við að fara í líkamsrækt eða sund.
ég er ekki nógu dugleg við að heimsækja ömmu mína.
ég er ekki nógu dugleg við að skrifa fólki bréf eða tölvupóst.
ég er ekki nógu dugleg við að borða ávexti eða drekka vatn.
ég er ekki nógu dugleg við að nota krem og dunda mér við líkamlega umhirðu.
ég er ekki nógu dugleg við að taka ákvarðanir og fylgja eigin sannfæringu.
ég er ekki nógu dugleg við að vera sannfærð um eitt né neitt.
ég er ekki nógu dugleg við að reyna að vera skapandi.
ég er ekki nógu dugleg við að fara snemma að sofa og snemma á fætur.

hinsvegar er ég dugleg við að finna allt það sem ég er ekki dugleg við.
svo er ég dugleg við að tja..... sofa, borða, reyna að kenna fólki og vera í góðu skapi.
það hlýtur að gilda eitthvað...
ég er líka rosalega góð í að bakka í stæði og keyra almennt. já...og
ég er góð í að bulla og blaðra.
ég er góð í að hitta vinkonu mína samkvæmt stundaskrá.
ég er góð í að velja nammi í bónus og bragðaref í ísbúðinni.
ég er góð í að synda og gera magaæfingar.
ég er góð í að horfa á bíómyndir.
ég er góð í að sjá jákvæðu hliðarnar á ýmsu.
ég er góð í að nudda.

jújú svei mér þá...þetta er allt í lagi. (nú skrifaði ég óvart legi áður en ég fattaði það og leiðrétti þetta fraudian slip)

einhverra hluta vegna leitar hugur minn alltaf innávið þessa dagana þegar ég sest niður og reyni að hugsa. einhverskonar þreifingar í gegnum svona sjálfsmyndarkrísu sem sest í andlitið á mér þar sem ég ligg afvelta af sjónvarpsglápi, nammiáti og kókdrykkju. svipuð tilfinning og ég fæ eftir að lesa bækur eða blogg eftir fólk sem mér þykir óhemju hugmyndaríkt, fyndið, klárt og spennandi í sínu áhugaverða lífi.
ætli ég fái ekki andlegu komplexana eftir það. hina líkamlegu eftir að horfa á fallegt fólk í imbakassanum.

ég er haldin andlegri anorexíu.

þriðjudagur, desember 12, 2006

sökum önnu er hálfgerð bloggpása. ég mun blaðra einhverja vitleysu í hvert sinn sem ég hef tíma til að setjast niður og hangsa aðeins í tölvunni...en þess á milli mun ég laga íbúð, fara á bekkjarkvöld í 6.bekk, baka piparkökur, taka á móti útlendingum, hafa ofanaf fyrir útlendingum, fara á tónleika með uppáhalds hljómsveitinni minni fm belfast, kenna kennurum spænsku, hjálpa múttu að velja jólagjafir, fara á jómfrúnna með vinkvonum og þeirra mökum og sennilega reyna að sofa, borða og fara á klósettið einhverstaðar þarna inní líka.
en semsagt...þangað til ég sest niður aftur,
hasta la vista og feliz navidad

fimmtudagur, desember 07, 2006

hvusslags. bara kominn desember og ég enn með höfuð í rassi. vanrækjandi síðuna mína fínu eins og ég veit ekki hvað.
hvað er annars að frétta.... tja, prófavika og soleis. ég eyddi 4 klukkustundum í fyrradag í risastóra gula og bláa gámnum í garðabæ. borðaði salta aspassúpu einhverstaðar á leiðinni því ég varð svöng á að ráfa á milli þykistunniíbúða og herbergja. en okkur tókst að eyða góðum slatta af mánaðarlaunum þarna inni, enda að innrétta íbúð í flýti áður en mágurinn og svilkonan lenda á klakanum frá le mexique. nú á ég amk í bili þvottaherbergi með stæl, svona líka fallegt baðherbergi og gardínur til að draga fyrir herlegheitin. já og stóran pott undir jólasaltfiskinn.
deginum í gær eyddi ég svo í að skrúfa saman dót úr flötum pakkningum og raða hlutum á hillurnar sem ég hengdi á vegginn í áðurnefndu þvottaherbergi/geymslu.
í dag kláraði ég svo að semja próf og fara yfir verkefni, er á leið í að elda kvöldmat, svo þarf að ganga frá börnum og heimili og að lokum mun ég enda daginn á kaffihúsi ásamt príorítetsvinkonunni einu sönnu.
það er ástæða fyrir því að ég er ekki að eyða tíma í að blogga.....

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

mér leiðist remba. remba á heima á klósettinu. það er hannað fyrir rembing og útkomu hans.
mér leiðist þegar fólk rökstyður skoðanir sínar illa eða ekki.
mér leiðist þegar fólk setur heilu kynin, þjóðirnar, heimsálfurnar og/eða trúarhópana í einn lítinn pakka, njörvar niður og stimplar eins og pósthússtarfsmaður djöfulsins.
mér leiðist þegar fólk þykist vita allt um það sem það veit ekki neitt nema það sem sjónvarpið og aðrir miðlar hafa stappað saman, maukað og hrært og matað ofaní það.
mér leiðist þegar fólk heldur að það sé merkilegt umfram það sem hver og ein mannvera er merkilegt fyrirbæri.
mér leiðist þegar fólki þykir það með tilveru sinni hafa unnið sér inn einhver meiri mannréttindi en aðrir.
mér leiðist þegar fólk fattar ekki að það er eintóm heppni að hafa fæðst inní svona samfélag eins og við eigum í dag. það var aldrei valmöguleiki.
mér leiðist þegar fólk fattar ekki að sú staðreynd að þau urðu að manneskjum í líkama karls eða konu en ekki sáðfruman við hliðina á því í sundinu mikla er algjör tilviljun.
mér leiðist þegar höfuð fólks eru lok lok og læs og allt í stáli fyrir því að ræða, skoða, velta fyrir sér og kanna nýja og ólíka möguleika á skoðunum og afstöðu.
mér leiðist þegar fólk hefur skoðun af því að það heldur að hún sé flott.
samt er ég alveg í góðu skapi

mánudagur, nóvember 27, 2006

af hverju hafa konur óbeit á líkamshárum sínum? hvaðan kom þetta með að við séum fallegri hárminni á líkama en hárprúðar á höfuðleðri? ekki þykir fallegt þegar konur eru hálfsköllóttar á höfðinu (nema í undantekningartilfellum eins og sjinned ó konnor). en þó erum við vinsamlegast beðnar um að vera sköllóttar í handakrikunum, á leggjunum og vel tilhafðar á þríhyrningnum.
ég viðurkenni alveg að ég tek þátt í þessum hárafasisma og líður helst til druslulega og subbulega ef langur tími líður á milli snyrtinga.
þetta getur alveg farið út í öfgar og valdið konum sálarkvölum og þjáningu. fyrir utan þjáninguna sem fylgir kláða og inngrónum hárum.
bölvuð endalaus tískuvesöld

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

ég er allskonar samsull af genum og áhrifum úr umhverfi mínu. ég er eiginlega hálfgerð klessa. þversagnakennd klessa.
ég hef augnlit frá föðurömmu minni í gegnum pabba. beyglaða næstminnstutá frá langömmu minni í gegnum afa og pabba. ég á bágt með að segja nei eins og móðuramma mín. mér þykir óþægilegt að láta hrósa mér en ég þrífst á hrósi. ég vil ekki láta fara mikið fyrir mér en ég vil láta taka eftir mér. ég vil ekki láta hafa fyrir mér en ég elska þegar haft er fyrir mér. mér finnst ég vera drusluleg en samt er ég eigilega bara fín. mig langar að vera listræn og skáldleg og ég trúi því að ég geti það, samt trúi ég því varla að ég geti það eða muni nokkurn tíman framkvæma eitthvað listrænt og skáldlegt. ég vil geta verið ströng og skoðanaföst en ég skil alltaf sjónarmið allra svo vel að ég skipti um skoðun auðveldlega. svo er ég ekki ströng því mér hefur aldrei verið vel við fólk sem hefur verið strangt við mig. svo vil ég að öllum líki vel við mig og fer einhverra hluta vegna í tilfinningalega steik þegar mig svo mikið sem grunar að einhverjum þyki ég ekki ágæt. en samt veit ég að það er óþarfi.
það er ekki auðvelt að vera þversagnakennd klessa.

mánudagur, nóvember 20, 2006

ég fór út í búð í hádeginu ásamt samstarfsfólki. svosem ekki í frásögur færandi enda fer ég yfirleitt með sama samstarfsfólkinu í sömu búð að kaupa sama hádegismatinn fimm daga vikunnar.
í dag gekk ég að salatbarnum og greip bakka en fékk svo letikast og skilaði bakkanum og bakkaði að samlokukælinum. þar nældi ég mér í samloku með raftaskinku og salati sem leit óskaplega vel út, hét meira að segja deli, og létta kókflösku til að skola herlegheitunum niður.
svo röltum við samstarfsfólkið saman heim í vinnu. á bílastæðinu fann ég farsíma ofaní snjónum sem reyndist tilheyra afar þakklátum nemanda sem hefur semsagt fengið símann aftur og hann virkaði og allt. það var góðverk dagsins.
sem minnir mig á að um daginn fór ég á framboðsfund guðrúnar ögmunds (sem gekk því miður ekki nógu vel í prófkjörinu). á leið minni út af fundinum fann ég stútfullt seðlaveski liggjandi í lækjargötu. ég hringdi í eigandann sem reyndist vera kona og skutlaði veskinu til hennar og hún var yfir sig þakklát og hringdi í mig daginn eftir til að fá að borga mér fundarlaun, sem ég og afþakkaði pent með þeim orðum að ég hafi bara verið að gera öðrum það sem ég vil að aðrir gjöri mér.
kristilegt siðferði langömmu minnar sem lét mig biðja heilu runurnar af bænum hefur greinilega skilað sér.
nema hvað, svo fór ég semsagt áðan upp á kennarastofu þar sem við settumst að snæðingi og spjalli eins og okkur er tamt samstarfsfólkinu, enda öll voða skemmtileg og sniðug og svöng.
samlokan mín var skorin í tvo þríhyrninga. öðrum þríhyrningnum tróð ég í andlitið á mér og smakkaðist hann hreint út sagt ansi vel.
svo var komið að seinni helmingnum sem ég tók úr boxinu og einhverra hluta vegna snéri ég honum við. hefur sennilega eitthvað með það að gera að mér þykir eðlilegra að borða samloku þar sem skinkan er neðst og salatið ofaná en ekki öfugt. (smá vottur af matareinhverfu).
nema hvað, þar sem ég snéri samlokunni við blasti við mér utaná brauðsneiðinni grár ormur sem lá þar í makindum sínum ábyggilega saddur eftir salatát.
síðan þá hef ég ekki haft matarlyst.
núnú, ég rölti aftur í búðina og sagði við afgreiðslustúlkuna: ,,góðan dag, það er ormur á samlokunni minni". þrjú ungmenni sem stóðu fyrir aftan mig og gæddu sér á salati urðu skrýtin í framan og fóru að rannsaka matinn sinn. ætli ég hafi ekki óvart skemmt aðeins matartímann fyrir þeim, sem er miður.
en nú bíð ég eftir símhringingu frá samlokufyrirtækinu sem mun áræðanlega bjóða mér ársskamt af samlokum sem ég hef ekki lyst á.
ég vorkenni eiginlega bara orminum sem hefði getað lifað góðu lífi á samlokunni sinni ef hann fengi að vera þar í friði. honum verður væntanlega fargað greyinu, eins og þetta væri honum að kenna.
auminginn...

föstudagur, nóvember 17, 2006

sökum veikinda hef ég 2 miða á sykurmolana sem eru falir fyrir einhverja peninga :)
síminn minn er 8497826

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

ég á afmælí dag
ég á afmælí dag
ég á afmæli sjahálf
ég á afmælí dag.
húrra!

skítakuldi ef útí það er farið... mér er þó hlýtt að innan.
fékk rooooosalega fallega skó frá makanum og burðunum. þarf samt stærra númer en það er allt í lagi.

mánudagur, nóvember 13, 2006

ég sé skilaboð um að ég eigi að færa mig yfir í nýrri versjón af bloggernum. því þori ég ekki, enda ekki nýjungagjörn manneskja í svona málum. svo stendur líka að ég eigi þá að nota google leyniorðið mitt sem ég á ekki svo að ég er hrædd um að týna öllu klabbinu. má ég ekki bara halda áfram svona? ætli einhver tölvugaur þarna úti eigi eftir að breyta öllu kerfinu svo að ég lendi í vandræðum og rugli? mikið vona ég ekki.
nema hvað. græna fólkið er alveg að hverfa af fótleggnum á mér, enda lá ég í sundi í klukkutíma í morgun í von um að það strokaðist út. ég held að græna fólkið sem gægðist uppúr peysunni minni í borgarleikhúsinu á föstudaginn sé amk alveg farið. mikið hló ég annars þegar ég sá bakið á mér í speglinum eftir að hafa verið voða fín í leikhúsi með grænt fólk á bakinu. (peysan er semsagt þannig að það sést í bak).
annars er það eitt að frétta að ég vaknaði eftir mjög annasama nótt við hlið andvaka síðburðar, algerlega pikkföst frá hálsi og niður með vinstra herðablaði. nuddpotturinn í laugardalnum mýkti mig aðeins upp en stíf er ég þó enn. ég væri alveg til í að láta klóna fyrir mig nýtt bak. fer það ekki að verða möguleiki fljótlega?

sem minnir mig á það.... hver haldiði að eigi ammæli á miðvikudaginn??!!
í dag er semsagt fyrsti í afmælisviku 2006. uppáhalds vikan mín.

föstudagur, nóvember 10, 2006

þegar ég sofna sofna ég fast. ég er yfirleitt gaurinn sem vaknar ekki við neitt, amk er ég ávallt betur sofin en makinn sem er aðeins stressaðri týpa en ég og grynnri í honum svefninn.
ég vakna samt alveg við vekjarasímann minn, klöngrast fram og vek frumburðinn og sofna svo vært aftur eftir að hafa fullvissað mig um að hann sé nægilega vaknaður til að koma sér í skólann á réttum tíma (og smyrja handa honum samloku í nesti).
um það leyti sem frumburðurinn lokar útidyrunum á eftir sér er yfirleitt kominn tími á síðburðinn að rumska. hún rumskar samt voða lítið. er meira svona..opna augun...komin í stuð. ég hinsvegar er oft mjög þreytt á milli vekjaraklukku og brottfarartíma eigins. þá verð ég að finna leiðir til að láta síðburðinn dunda sér í einsog hálftíma. það virkar yfirleitt með litum og blöðum, barnatíma um helgar. undanfarið hefur hún fengið leyfi til að myndskreyta veggi svefnherbergis okkar, enda verður það tekið í gegn og málað fljótlega. við það hefur sú litla skemmt sér marga blundina mína.
í morgun fór allt af stað eins og venjulega, ég hnoðaði frumburðinn til meðvitundar og smurði brauð. kvaddi hann og skreið upp í rúm. opnaði aftur augun við síðburðinn sem sat með tússlit á koddanum mínum og teiknaði kalla á vegginn. mig minnir að ég hafi brosað til hennar og að henni áður en ég datt aftur út.
einhverjum hálftímanum síðar rankaði ég aftur við mér til þess að hefja daginn loksins. sat þá sú litla til fóta. mér var kalt á hægri fótlegg sem stóð undan sænginni. ég stakk honum undir til að hlýja mér aðeins áður en ég fór framúr. svo fór ég framúr. þá sá ég afrakstur síðasta hálftíma.
fótleggurinn á mér frá læri og niður að tám er þakinn grænu fólki, grænum sólum og blómum og utanum allt er risastór ílangur hringur með geislum, svona eins og sól.
ég hætti við að fara í líkamsrækt í morgun og fór í þykkustu sokkabuxurnar mínar. þetta sést samt í gegn og fer ekki auðveldlega af.
fórnarkostnaður morgunsvefnsins.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

ég þekki marga útlendinga á íslandi.
allir þeirra sem ég hef rætt við eru sammála því að takmarka verði streymi útlendinga til landsins. þeir eru smeykir við þróunina.
magnaður skítur.

mér er sama hvaðan fólk er. við verðum bara öll að kunna að hegða okkur í mannlegu samfélagi þar sem áhersla er lögð á virðingu fyrir náunganum.
það fer í taugarnar á mér þegar fólk talar um jújú...evrópubúar..blabla... austantjaldslöndin...allir þurfa að læra íslensku...gott starfsfólk...bla... en þessir múslimar. já, þar skulum við sko passa okkur. það lið vill ekkert nema grafa undan vestrænum samfélögum og byggja moskur og sprengja sig í loft upp.
bölvað fordómaþvaður.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

núna langar mig að prófa hvort ég geti sett inn tónlist hingað inn og kannski gert eitthvað skemmtilegt í framhaldi af því. ef það tekst.
tónlist?

neibb, það tókst ekki. ég gat bara gert link á útvarpssíðu. djöh.
veit einhver hvernig ég get sett inn tónlistarfæla hingað?

bueller?

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Hér er góður pistill sem ég mæli með að þið lesið (ef það er einhver þarna úti)
PISTILL

ps: ég er að reyna að gera svona tengil í fyrsta skipti...vonandi tekst það
ég finn hvernig bölið læðist aftanað mér. eða frekar innanúr mér. þessi óhroði sem ég fékk í arf frá foreldrum mínum. af og til sýnir þessi óværa á sér klærnar, sérstaklega þegar ég má minnst við því. þegar ég er veik fyrir og viðkvæm. þá kemur hún. ég finn hitan sem hún sendir frá sér, kitlandi straumar sem minna á tilveru hennar. svo hlær hún beint uppí opið geðið á mér. í andlitið á mér. á vörina á mér. helvítis frunsuandskoti.
ætli þessir plástrar virki eitthvað?

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

makinn minn er útlenskur orðinn íslenskur þó svo að honum líði voða lítið íslenskum blessuðum. hann hefur verið hérna meira og minna síðan áður en það varð algengt að hitta útlendinga á íslandi sem voru ekki í sumarfríi og á leið út á land að hjóla.
síðan hann kom hafa margir komið sem er fínt og flott og gott fyrir landann og landið og eigum við slatta af vinum og kunningjum héðan og þaðan hérna.
ég get samt ekki að því gert að verða pirruð þegar ég stend sjálfa mig að því að vera smeyk við að ganga um miðbæinn á kvöldin eftir að hafa lesið um bandbrjálaða kynlífssvelta erlendinga sem bókstaflega taka konur og taka þær. það er ekki stemming sem ég vil hafa í samfélaginu þegar börnin mín stækka og þroskast. þá er einmitt búið að skemma þennan gamla kósí sjávarplássfíling sem ég hef alltaf verið svo hrifin og stolt af hér í litlu höfuðborginni. sérstaklega í miðbænum.
má panta að fá bara inn útlendinga með maka?

mánudagur, október 30, 2006

ég eyddi síðari hluta föstudags og fram að síðari hluta laugardags í félagskap tuttuguogeitthvað unglinga. einn var víst orðinn tvítugur og sá sem á eftir mér kom sem aldursforseti er tuttuguogfimm. hitt liðið var á milli fimmtán og sautján-átján.
skólaferð semsagt.
á tímabili hafði ég áhyggjur, verður að segjast eins og er. ég vissi frá upphafi að einhverjir hefðu í huga að koma með áfengi með sér og það stressaði mig nokkuð.
síðar átti eftir að koma í ljós hvurslags ljós eru í þessum skóla. sumir stundum svolítið stærri að utan en að innan, en í heildina blessaðir öðlingar.
semsagt, allt fór vel fram. eitthvað var um að hormónin næðu yfirhöndinni og sumir áttu víst erfitt með að hemja kynkvötina. lítill hvítur hundur sást á sveimi í félagsheimilinu, en ég var of upptekin við að sigra trivial til að láta hann pirra mig. annars hafa mér alltaf þótt litlir hvítir hundar hvimleiðir. sérstaklega poodle.
nema hvað, ég sigraði trivial á aldri. vil ég meina. þetta var afmælisútgáfan sem virðist hafa verið miðuð við árið 1985, en amk heyrði ég ekki mikið um spurningar þar sem eitthvað átti að hafa gerst fyrir þann tíma. af þeim sökum bar ég höfuð og herðar yfir aðra keppendur, enda megnið af þeim fætt í kringum 1990 og gátu ekki með neinu móti munað eitthvað sem gerðist á milli 1987 og 1995. muahahahaha.... (ég lendi reyndar í vandræðum með spurningar um eminem og tölvuforrit einhverskonar..ehe). einn guttinn reyndi að vera flottur á því að minna mig á hvurslags eiginlega forngripur ég væri, en hann fékk það í bakið blessaður daginn eftir þegar honum féll í skaut að þrífa karlaklósettin. vonandi kennir það honum að vera ekki dónalegur við ungar konur.
eitt sem vakti athygli mína innanum þessa krakka var hversu tæknivædd þau eru. sumir voru með fartölvur, góður slatti með ipod (með 30gb minni og bíómyndaskjá!), einhver var með lítinn ferðadvdspilara og allir sem ég sá voru með síma með ljósmynda og vídeóupptökuvél. minn var sá eini sem náði ekki sambandi við umheiminn, enda gamall, ódýr og aumingjalegur innanum allan þennan lúxustæknivarning.
mér taldist til að sumir væru að minnsta kosti með kvartmilljón í vösunum af tækni. og afþreyingin glumdi langt frameftir nóttu þar til slökknaði á fólkinu og græjunum í morgunsárið.
ég er enn að reyna að jafna mig á svefnleysi næturinnar, enda orðin gömul í hettunni..hehe... eða ekki.
já og við fórum á laugardaginn að sjá hval vera skorinn. magnaður skratti. mikið af keti sem ég skil ekki alveg hver ætlar að eta. ekki ég aðminnstakosti.

fimmtudagur, október 26, 2006

mikið ógurlegt ansans hugmyndaleysi hrjáir mig. þegar ég sest fyrir framan tölvuna og hugsa mér til skrifings kemur einhvernvegin ekkert upp á yfirborðið. allt þetta sniðuga sem mér dettur í hug þegar ég ligg og reyni að sofna er einhverstaðar gleymt og grafið í djúpum sálarfylgsnum, eða jafnvel ekki. kannski bara gufað upp í veður og vind. nóg er svosem af veðrum og vindi í þessu landi, oseisei.
mér dettur ekkert í hug til að segja frá úr daglega lífinu. það rúllar bara og ég er alltaf að skána í matargerðarlistum. hef amk orðið lyst á því sem ég elda þó það séu engin listaverk, kannski lystarverk.
mér dettur heldur ekkert í hug til að kvarta yfir úr þjóðlífinu. nóg er um kvartanir út um allt svo ég sé ekki að bæta í þann pytt.
ég var að enda við að lesa rokland hans hallgríms. skemmtileg bók og skemmtileg aðalpersóna sem kvartar yfir því sama og fólk kvartar amk einu sinni í hverju dagblaði sem ég les. hann gerir það bara í þriðjaveldi.
ætli það sé eitthvað til í því að neysla lélegs sjónvarpsefnis hafi sljóvgandi áhrif á heilann?
ég sat tildæmis í aulahrolli mínum og horfði á tyru banks og fyrirsæturnar í gærkveldi. ætli það séu þær sem hafa strokað hugmyndir mínar út í dag? ég spyr mig...
best að passa sig á sjónvarpinu í kvöld og sjá svo hvort ég verð eitthvað gáfulegri á morgun.

þriðjudagur, október 24, 2006

nú lentum við í pípurum.
eins og sumir vita búum við í tveimur litlum íbúðum (löng saga) en þannig var mál með vexti að í annarri þeirra voru allir ofnar ískaldir. þá hringdi ég í pípara sem mætti á réttum tíma og allt, en stóð sig ekki betur en svo að hann vissi ekkert hvað hann ætti að gera. minn vinur hringir í félaga sinn, eitthvað hærra settan í fyrirtækinu og við biðum. og biðum. loksins kom hann, skrúfaði eitthvað í einum ofni í íbúðinni sem var ekki köld og þvældist svo um húsið í leit að vitleysunni. að lokum komust þeir að þeirri niðurstöðu að þeir skildu kerfið ekki og ráðlögðu okkur að finna pípara sem hefði eitthvað meira vit á þessu skrýtna húsi.
núnú, og við gerðum það. hann mætti blessaður og þvældist hér upp og niður þangað til hann fann útúr vandamálinu sem hann hafði í raun ekki meira vit á en hinir í upphafi, og lagaði allt. fyrir það rukkaði hann okkur tæpan tíuþúsundkall.
nokkrum dögum síðar fékk ég reikning frá fyrirtækinu með ringluðu píparana uppá rúmar átjánþúsundkrónur. að sjálfsögðu gleypti ég bara loft og munnvatn og fékk hálfgerðan svima yfir upphæðinni sem mér var gert að greiða fyrir nákvæmlega ekki neitt. svo hringdi ég í fyrirtækið og spurði en þeir sögðu mér þar að hann hefði víst skrúfað í einn ofn og að þetta hefði verið unninn tími. ég tjáði honum að mestur tíminn hefði reyndar farið í að sitja og bíða eftir öðrum þeirra sökum lítils sjálfstrausts hins fyrri, og svo í að heyra frá þeim að þetta væri ómögulegt, að við þyrftum sennilega að láta skipta um allt kerfi í húsinu sem myndi kosta hátt í milljón.
bla bla bla sögðu þeir og það var ekki fyrr en makinn minn spjallaði við yfirmann fyrirtækisins og skammaði hann að þeir beygðu sig og ,,leyfðu" okkur að borga bara rúmar tólfþúsund krónur. sem ég og gerði til að losna við hausverkinn.
ég get þó ekki að því gert að mér þykir þetta hafa verið ansi blóðugur peningur og hefði glöð viljað eyða honum í eitthvað allt annað.
hér með mæli ég ekki með fyrirtæki sem heitir faglagnir.
þó svo að það sé rétt að kerfið í húsinu sé ruglað og píparinn sem setti upp mælana hafi greinilega verið óttalegur þöngulhaus, þá sýndi þolinmóði píparinn sem á eftir kom að það var hreint ekki ómögulegt að komast til botns í vandanum og leysa hann.
hann heitir guðmundur og er héðanífrá sá sem ég mun alltaf hringja í.

sunnudagur, október 22, 2006

fór á loftöldurnar í gær. á ekki armband en fékk mig keypta inn á pravda uppúr klukkan tíu í þeim tilgangi einum að berja augum einu manneskjuna sem er búin til nákvæmlega úr sömu genablöndu og ég. samt þykir fæstum við mjög líkar, sem sýnir bara hvursu margt sniðugt getur komið útúr því þegar pabba mínum og mömmu er blandað saman.
nema hvað, hún systir mín og aríaprinsinn hennar, semsagt mágur minn, voru að leika listir sínar undir nafninu fm belfast. drullu var það gaman og drullu eru þau klár.
ég stóð á palli ásamt svilkonu minni og eldri systur mágsins, sem er í óspurðum fréttum að bjóða sig fram í samfylkingunni (og það segir mér fleira gott um hana en margt annað), og horfði stolt á.
frétti síðar að einn af fullu útlendingunum sem voru beint uppvið sviðið var með kynfæri sín hangandi úti allan tímann og þótti nett stressaðri söngkonu það ekki afstressandi en henni tókst með glæsibrag að láta ekki á neinu bera útaf þessum bera, amk. tók ég ekki eftir neinu þar sem ég dillaði mér með bros á milli eyrnanna.

jebb.... það var nú svo og svo var nú það

laugardagur, október 21, 2006

næst á dagskrá er extreme makeover mental edition. ég hef ákveðið að reyna að minnka froðuna á milli eyrna minna með því að hætta að eyða öllum föstudags og laugardagskveldum fyrir framan fólk að eiga líf í hollívúd á meðan ég sit og soðna í heilanum með tár í augunum yfir þeirra vandamálum og sorgum sem eru ekki einu sinni alvöru.
mig minnir nú að ég hafi kvabbað yfir þessu áður, en aldrei er einu kvabbi ofaukið í ofanálag umfram allt líka.
nú er ég á leið með síðburðinn í göngutúr til að kaupa spilastokk og teninga. svo þarf ég að gramsa eftir dómínókassanum í geymslunni því dómínó er virkilega skemmtilegt spjel.
svo ætla ég að hætta að eyða umframtímanum mínum í að kvarta yfir að gera ekkert og ætla frekar að nota hann í að gera allt þetta sem ég kveinka mér andlega yfir að vera ekki að gera þar sem ég ligg andvaka af kókdrykkju og hugsunum.
já og ég ætla líka að fara að drekka minna kók. (þetta kemur allt í smá bútum)
sem minnir mig á eina málsháttinn (eða orðatiltækið, get einhvernvegin aldrei verið viss um hvað er hvað stundum og yfirleitt eða allavega oft) sem ég hef tekið eftir og tekið mér að leiðarljósi eða mottói eða svoleiðis.
hvert ferðalag hefst á einu skrefi.

fyrsta skref: horfa ekki á sjónvarp í kveld (og er það laugardagskveld)

fimmtudagur, október 19, 2006

miðvikudagur, október 18, 2006

hvað er málið með brjóstaskorur? hvenær eru þær viðeigandi? eða eru þær alltaf viðeigandi?
af hverju er fólk alltaf að minna mig á nærfötin sín með því sem þau klæðast? síðan hvenær þykir eðlilegt að sjá í nærbuxurnar hjá fólki á förnum vegi? eða brjóstahaldara? á mánudagsmorgni?
er þetta ekki skemmtilegt? að hver einasta setning sé spurning? eða hvað?
erekki allir í stuði?

þriðjudagur, október 10, 2006

hananú. nú fæ ég krabbamein af því að drekka kók læt. svo fæ ég offitu af því að drekka kók ólæt. best að reyna bara að sleppa svörtum drykkjum yfir höfuð sýnist mér. er þó erfiðara en það hljómar.
skrattakornið að þurfa að sleppa svona mörgum skemmtilegum hlutum úr tilverunni bara til að vera heilbrigður.
fly on the wings of love hljómar nú í eyrum mér og ég er að dunda mér við að skipuleggja morgundaginn vinnulega séð. svo er ég líka að hugsa hvað í skrattanum ég eigi eiginlega að hafa í matinn í kveld. á sama tíma er ég að ákveða hvað ég eigi að kenna námskeiðsfólkinu mínu á eftir. ég þarf að muna að hringja í píparann. ætli arkítektinn eigi eftir að hringja í mig í dag eins og hann sagði? ég þarf að minna son minn á að læra heima og æfa sig á trompetinn. úff, það verður að þrífa heima hjá mér fljótlega og ég verð að muna að stinga í þvottavél á eftir. já og svo tók ég að mér að finna verð á hliði fyrir húsfélagið. muna líka að rukka þá sem skulda mér. og finna tíma til að fara í ræktina. hvað ætli hafi orðið um sunddót sonar míns? hann á að mæta fljótlega til tannlæknis, verð að muna það. sem minnir mig á það, ég þyrfti sjálf að fara að panta tíma. gott ef það þarf ekki að fara að smyrja bílinn hvað úr hverju, best að minna makann á það. já og fara yfir prófin.

magnað hvað heilinn rúmar mikið af drasli...

fimmtudagur, október 05, 2006

nýjast er það að frétta af fasteignaviðskiptum mínum að eigandi íbúðarinnar hringdi í mig áðan. blessaður drengurinn sagði mér frá því að þau hjónakorn væru að hugsa um að gefast upp á að búa erlendis og vildu helst hætta við að selja íbúðina sína svo að heimkoman verði sem þægilegust og vandræðalausust. hafði kauði hringt í herra slepju til að upplýsa hann um bakþanka þeirra hjóna en þá hótaði hann þeim því að við gætum lögsótt þau fyrir vanefndir á samningnum fyrrnefnda.
nákvæmlega það sama og hann sagði við mig þegar ég vildi bakka.
nú vilja báðir aðilar bara gleyma því að nokkur hafi skrifað undir neitt og halda lífinu áfram, en á milli okkar trónir gráspengdur slepjuþurs sem hótar öllum lögsóknum hægri vinstri.
seljandaljúfmennið var hinn kátasti þegar ég tjáði honum að ég hefði engan vegin í hyggju að kæra hann og sömuleiðis var þungu fargi af mér létt þegar ég fékk sömu fréttir á móti.
eina mögulega vandamálið í stöðunni er fasteignaskrímslið sem hengir sig nú í að hann eigi heimtingu á sölulaunum og væntanlega yrði honum skemmt að sjá seljandann lögsækja mig í þeim tilgangi að láta mig greiða þau fyrir að hafa aulast til að bjóða í kofann.
en nú er alveg eins þeim að kenna að hafa samþykkt tilboðið...ehe...

svei mér þá ef hlandið er ekki að hverfa frá hjartanu mínu.

þriðjudagur, október 03, 2006

já einhver er nú lægðin í fingrum mínum þessa dagana. heilastarfsemin er ekki eins virk og hún mætti vera, en hún á það til að grána í þoku hversdagsleikans.

nú sit ég semsagt og sinni starfi yfirsetukonu. starf yfirsetukonu felst í því að sitja yfir. gengt mér eru litlu nemendadvergarnir mínir sem ég er reyndar ekki að kenna þessa dagana því nú er ég spænskukennari og það er ekki sama hvenær hver kennir hverjum hvað. oseisei.

annars er það að frétta að ég skrifaði undir kauptilboð eins og fífl á föstudaginn og vil nú út eftir að eigendafíflin sáu sér ekki fært að neita tilboðinu. út vil ek sökum gífulegra magnaðrar vaxtapressu sem bankabáknið vill skella á herðar mér en ek vil eigi.
eftir að ég tilkynnti löggilta fasteignasalanum með gráa hárið og smeðjulega brosið um aðstæður mínar lét hann mig vita í óspurðum fréttum að þá væri hægt að lögsækja mig.
kemur þá uppúr krafsinu maðkurinn í mysunni eins og skrattinn úr sauðaleggnum í dauðans ofboði. mannandskotinn sleppti því að hafa fyrirvara um fjármögnun í samningnum ,,því að við litum að hans mati út fyrir að vera svo örugg með okkur". og ég eins og fífl og fáviti (sem ég get stundum verið, ekki oft en stundum), las ekki út og inn samningshelvítið vegna þess að ég hef lesið svona samninga svo oft og þeir hafa alltaf verið eins MEÐ FYRIRVARA UM FJÁRMÖGNUN. mér hefur meira að segja verið sagt af fasteignasala að fyrirvarinn atarna sé fastur og óhagganlegur liður í svona samningum. en nei. ekki í þessu tilfelli.
og hér sit ég með hjartað í buxunum, köggulinn í hálsinum, lífið í lúkunum, hland fyrir hjartanu (sem er í buxunum) og tárin í augunum og vonast eftir því að verða ekki lögsótt af slímkenndum smjörlegnum fasteignasala með álímt smeðjubros sem nær engan vegin til augnanna.

miðvikudagur, september 27, 2006

ég hef aldrei farið nálægt kárahnjúkum. var að kenna í gærkveld þegar fólk elti ómar niður laugaveginn. samviska mín þjáðist einhverra hluta vegna. einvhernvegin getur mér ekki verið alveg sama þó svo að sökkt verði stað sem ég myndi hvort eð er sennilega aldrei sjá. aldrei að vita þó. héðanaf verður amk lítið úr því að ég fái að sjá hann í framtíðinni. þegar ég verð stór og þroskuð og dugleg að kynnast landinu mínu. stjórnvaldafyrirbærið pirrar mig. af hverju hefur mannskepnan valið þetta samfélagsform yfir sig? getum við ekki breytt því héðanaf? ef eitthvað er rótgróið er það þá staðfesting á því að það sé best og að ekkert annað gáfulegt sé til? hvernig er hægt að breyta þessu ástandi þannig að við andlitslausi fjöldinn getum losað okkur undan duttlungum fárra valdamikilla aðila sem hafa of mikið að segja um líf okkar allra í heiminum?
svona hlutir pirra mig og láta mér líða sem máttvana skræfu. máttleysi, það er orðið.

þriðjudagur, september 19, 2006

makinn er sá sem hefur lag á að láta mat smakkast vel á þessu heimili. hann er svo góður í því að ég er eiginlega farin að verða fyrir vonbrigðum á veitingastöðum eftir að fá trekk í trekk mun betri mat heima hjá mér.
eftir 13 ár af eldamennsku fékk hann skyndilega þá flugu í höfuðið að fara í verkfall í eldhúsinu í óákveðinn tíma og afhenti mér þar með lyklavöldin að því herbergi heimilisins sem ég hef hve minnsta þekkingu á. jújú, ég veit sosum hvar allt er og svoleiðis en hef lítið vit þar fyrir utan. svo ekki sé minnst á gífurlega takmarkað matvælalegt hugmyndaflug.
í vinnunni er fólk farið að vorkenna mér og lauma að mér uppskriftum, en það sem mig vantar eiginlega umfram það er tilfinning fyrir matargerð. ég skil ekkert í kryddum og man sjaldnast eftir að nota slíkt og ég hef eins og ég segi ekkert hugmyndaflug. í bónus snýst ég í hringi og reyni að láta mér detta eitthvað nýtt í hug, en gengur lítið.
hér með mæli ég með því að fólk reyni að veita börnum sínum einhvern grunn að matargerðarviti áður en þau leggja af stað út í heiminn. guð má vita að ég hefði haft gott af því að læra að gera fleira en spagettí og kjötbollur.

sunnudagur, september 17, 2006

ég er ástfangin af íbúð.
getur einhver lánað mér 6 milljónir?

bloggdoði dauðans.

mánudagur, september 11, 2006

hvað er mikið félagslíf eðlilegt félagslíf fyrir fólk með heimili, tvö börn, maka og vinnu? hversu mikið er fólk að gera annað en vinna og vera fjölskylda?
er fólk almennt að heiman tvö til þrjú kveld í viku?

aðeins að reyna að staðsetja mig...

fimmtudagur, september 07, 2006

nú sit ég hér og glápi á súpernóva. veit reyndar ekki alveg af hverju. ætli ég hafi ekki bara látið sópast með í múgæsingnum. þó má ég eiga það að ég hef ekki vakað frameftir í eitt einasta skipti vegna þess að ég sé hreinlega ekki tilganginn með því að eyða mínum dýrmæta svefntíma í svona sjónvarpsefni. ég hef fylgst með endursýningunum svona hva... síðustu 3 skipti og viðurkenni alveg að ég hef gaman af. ég byrjaði að sjá þessa þætti auglýsta og sá brot og brot þar sem ég var stödd í mexíkó í sumar, en hafði lítinn áhuga þangað til ég var farin að upplifa mig eins og geimveru á vinnustað þar sem fólk mætir ótrautt til vinnu eftir þriggja tíma svefn sökum áhorfs og kosninga. ætli ég myndi ekki gera það sama væri ég eiginkona, vinkona, frænka, systir, móðir eða dóttir þessa blessaða magna, en þar sem ég er bara gaur úr breiðholti sem hefur aldrei hlustað á síðan skein skítamórall á sál sólarinnar eða hvað hún nú heitir hljómsveitin hans, finn ég fyrir óskaplega litlum tengslum við drenginn. óska honum þó velgengni og allt það... þjóðernis eitthvað...
vonandi verður netið komið í vinnuna á morgun.

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

svei mér þá ef ég hef ekki nælt mér í anorexíu í síðustu viku þegar ég dröslaðist aftur í litla líkamsræktarsalinn minn. þar steig ég á vigt og fann hvernig himnarnir hrundu yfir mig, sem aftur hjálpaði ekkert til þar sem það er ákveðin þyngd í himnunum. samt er ég ekkert mikið þyngri en ég var í vor. ég er bara aðeins meira biluð en ég var í vor. og nú þjáist ég af geðveilu á háu stigi sem felst í stanslausri löngun til að borða drasl og hreyfa mig til að losna við kílóin atarna og borða hollan mat og liggja eins og klessa, allt á sama tíma. kannast einhver við sindrómið?

nema hvað. nýju nemendurnar mínar eru eintómir snillingar. stórskemmtilegt fólk og ekki skemmir að þau eru drullusniðug upp til hópa. mig er reyndar farið að gruna að nokkur þeirra séu komin í beinan ættlegg af bibbu á brávallagötunni, enda flæða gullmolarnir uppúr þeim eins og þau fái borgað fyrir, sem er ekki.
ein tilkynnti okkur tildæmis um daginn að sessunautur hennar væri hræddur við loft. skömmu síðar kom í ljós að drengurinn var lofthræddur.
ég er farin að stelast til að skrifa hjá mér svona ,,best-of" lista...hér er byrjunin á honum:
tvær óstjórnlausar lestir rákust saman og mikil skelfing tók um sig. smátt saman róaðist þó fólkið en lögreglan talaði við lestarstjórana og svipti af þeim ökuleyfinu.
ég versla áfengið mitt í vínvörubúðinni.
kæru ræðugestir...
vinkona mín var með bólimíu...
stundum getur það hentað sér vel að prufureyna hlutina.
hér er ég með lykil sem ég man ekki hvað gengur að...en ég er búin að einka mér skáp.
nú og þá tók ég bara mál með vexti og reddaði hlutunum.

stundum velti ég fyrir mér hvort ég er eina manneskjan í stofunni sem virkilega tekur eftir þessu... en mikið assgoti langar mig oft til að skella uppúr. hef þó hemla á mér.

snillingar segi ég...eintómir snillingar...

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

er að hlusta á eddie skoller syngja what did you learn in school today.
eintóm hreinasta snilld, en ég er ekki alveg að átta mig á því hvað varð um indverjann sem sagði no rice and curry, but lots of peanutbutter and jam. eitthvað soleis.

annars er það að frétta að ég þjáist af bloggleti eins og sjá sosum má undanfarið. ég er hreint ekkert að brillera á ritvellinum. er samt almennt ánægð með lífið og tilveruna. þjáist ekki af þunglyndi né nokkru slíku. er frekar þekkt fyrir léttlyndi ef eitthvað er.

mig langar í dansskóla. ég kann að dansa beisik salsa og er fín í merengue en væri alveg til í að læra meiri hristing og djöfulgang.

nema hvað. þarf víst að vinna...

sunnudagur, ágúst 20, 2006

sá löður til sölu í búð í útlandi. langar til að sjá þá aftur til að kanna hvort þetta séu í raun eins skemmtilegir þættir og þeir eru í minningunni. væri líka til í að kíkja á cosby show, en einhverra hluta vegna grunar mig að þeir myndu valda mér vonbrigðum í dag. það sama held ég um húsið á sléttunni.
mig langar að sjá prúðuleikarana aftur því ég missti af þeim hérna um árið þegar þeir voru að mig minnir endursýndir á einhverri ruglaðri stöð. nú og svo væri gaman að sjá derrick og íslensku þættina þarna um fjölskyldurnar í raðhúsinu. man ekki í augnablikinu hvað þeir hétu. ég hef ekki nennt beverly hills og dallas aftur á undanförnum árum og svo varð ég fyrir heiftarlegum vonbrigðum þegar ég sá aftur áfram-mynd sem mig hafði minnt að væru yfirmáta fyndnar og skemmtilegar. slatta árum síðar þóttu mér þetta hálf aumkunarverðar klám- og karlrembubrandaralegar tilraunir til fyndni. benny hill datt ofaní sama pytt. það er sennilega af hræðslu við það sem ég þori ekki að horfa aftur á bleika pardusmyndirnar. svo er það kannski frekar ég en myndirnar sem er gölluð. ónýt eftir að læra mannfræði og verða ,,fullorðin", húmorslaus og gagnrýnin, get ómögulega haft gaman af ljótum körlum hlaupandi á eftir hálf nöktum skrækjandi stúlkum sem gætu verið barnabörn þeirra. óttalega húmorslaus og beisk eitthvað.
ef ég pæli nánar í því þá þarf alltaf meira og meira til þess að ég hlægi. svona almennilegum ha ha ha ha ha hlátri. svona illt í magann eða tár í augun.
nja, jú, ég hlæ alveg. jújú, hvaða vitleysa.... ég er alveg hress...

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

komin til landsins og byrjuð að vinna. það er súrt að búa í boxum en ég ætti svosem að vera vön, jújú oseisei. mig langar í sýklalyf því ég þarf endalaust að pissa sviða en það er ekki heiglum hent að fá slíkt við slíku, hvað þá að ná í fjandans lækninn sem hefur valdið yfir lyfseðlunum. hvar þarf ég að panta tíma og hversu lengi þarf ég að bíða og svíða? mig vantar lækna express eða apótek sem getur afgreitt mig um það sem ég þarf þegar ég þarf það án milliliða eða margra klukkustunda þjáninga. já ég veit að það þarf að passa svona dót eins og lyf en mér líður illa og heimilislæknirinn minn er upptekinn þangað til á morgun, læknavaktin opnar ekki fyrr en í kvöld og það er hvergi símatími fyrr en eftir klukkutíma. á meðan sit ég með súran svip og líður hreint ekki vel.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

nú er verið að undirbúa heimför. kaupa dótarí og svoleis.
verst að andrés, sá sem lenti í öðru sæti í forsetakosningunum er að gera mér erfitt fyrir.
þannig er nefnilega mál með vöxtm að hann er ekki sáttur við útkomuna og segir kosningarnar hafa verið svindl. fylgjendur hans hafa hlýtt kalli karls og hafa sett upp tjaldbúðir hirst og her um helstu stræti borgarinnar þannig að nú er þessi múltimilljónmannaborg í kaos, enginn kemst neitt, metro að sprengja utanaf sér og við erum ef svo mætti kalla, gíslar á heimilinu. eins gott að gísli kom ekki með.
ég sem ætlaði í miðbæinn í innkaupaferð. þar er nú fólk sofandi á götunum og það sem áður hefur tekið okkur 20 mínútur að keyra tekur nú einn til tvo tíma, og þá verður ekki einusinni hægt að leggja nálægt áfangastað. svona virðist ástandið ætla að verða út vikuna.
bölvaðir vitleysingar. margir eru farnir að sjá eftir að hafa kosið hann. ég sæi eftir því hefði ég getað kosið og hefði ég í því tilfelli kosið hann.

nú er ég farin að henda útrunnum lyfjum úr meðalaskúffu tengdapabbans. svona til að hann fari ekki að drepa sig á þessum andskota blessaður karlinn.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

ég er eitthvað voðalega löt og þreytt á að skrifa. skil samt ekki alveg þreytuna því að það er asnalegt að vera þreytt á einhverju sem ég er ekki að gera hvort eð er. hvaðan kemur þreytan? ég er alveg á nippinu með að hætta að ætla að verða rithöfundur þegar ég verð stór. finn það einhvernvegin ekki gerast...

nema hvað, við erum nýskriðin í hús eftir tæpra tveggja vikna ferð um norður-héruð landsins. komum meðal annars við í kirkjugarði í pínulitlu þorpi sem heitir jiquilpan (lesist híkílpan), þar sem við lagfærðum gröf langalangalangafa barnanna minna, en hann kom hingað frá frakklandi fyrir löngu síðan og settist hér að eftir að flýja stríð í evrópu. í gegnum internetkraftaverkið voru franskir ættingjar þessa manns að komast að afdrifum hans í fyrsta skipti síðan hann gufaði upp á tvítugsaldri. fjölskyldan hélt alltaf að hann hefði verið drepinn en veit semsagt fyrst núna að hann skildi eftir sig risastóran ættlegg í mexíkó. magnaður andskoti.

nú og svo borðuðum við mikið af góðum mat og svei mér þá ef ég hef ekki bætt einhverju utaná mig af öllu þessu áti. ég er að hugsa um að skella sökinni á hann fidel. fidel er sko þjónninn sem afgreiddi okkur alltaf í morgunmatnum á hótelinu í guadalajara. svaka duglegur við að dæla í okkur eggjum og tortillum og ávöxtum og djús og kókómalti og chilaquiles (lesist tsjílakíles), sem eru nokkurskonar nachos í rauðri sósu með sýrðum rjóma og rifnum osti og er oft borðað með eggjum í morgunmat hér á bæ. nema hvað... fyrir utan hvað maðurinn var duglegur við að dæla þá má ég til með að skrásetja tilveru hans hér með vegna þess að hann var ein af þessum ókunnugu mannverum í veröldinni sem vekja hjá mér óútskýranlega væntumþykju, ef ekki hálfgerða móðurtilfinningu. (skítt að ég skuli ekki hafa tekið mynd...)
fidel er semsagt maður, tja...á fimmtugsaldri. lágvaxinn og hokinn með stutt sleikt svart hár og við þau tækifæri sem ég sá hann (semsagt í vinnunni), klæddur í svartar buxur, hvíta skyrtu og svart vesti. fidel er með lítil svört gleraugu sem eru ábyggilega 4 sentimetra þykk, enda sýndist mér hann vera hokinn af því að reyna að sjá. hann er alveg eins og teiknimyndamoldvarpa í framan og er haldinn einhverju óræðu en um leið indælu krónísku brosi. það er ekki stórt bros en það glampar á eitthvað í augunum á honum og hann er allt annað en alvarlegur á svip. svona svolítið eins og kotroskin moldvarpa í vesti. mig langaði hreinlega að knúsa hann, stinga honum í vasann og fara með hann heim sem minjagrip.
en allavega, ef þið eigið einhverntíman leið hjá carlton misión hótelinu í guadalajara í mexíkó skulið þið endilega skreppa í morgunmat og setjast innst í salinn. þá munið þið hljóta þann heiður að kynnast einum af okkar yndislegu sam-jarðarbúum, honum fidel.

sunnudagur, júlí 23, 2006

nu erum vid buin ad vera ad ferdast um internetlausar lendur og skoda hitt og thetta. i augnablikinu erum vid stodd i guadalajara og erum um thad bil ad fara ad leggja af stad i ferd til baejarins tequila thadan sem drykkurinn kemur (eins og gefur ad skilja). svo mun eg tja mig meira um lifid og tilveruna thegar eg kemst aftur i almennilegt lyklabord.
langadi bara til ad senda kvedju svona rett a medan.
hafid thad gott...

þriðjudagur, júlí 11, 2006

jæja, þá er mín aftur komin til mexíkó og sosum allt gott um það að segja. einhverra hluta vegna hefur þó verið skýjað síðan ég kom, svo virðist sem ég hafi komið með skýin með mér. það er samt hlýtt og gott.
það var líka gott að hitta litlu familíuna mína þó svo að það hafi líka verið gott, holt og nauðsynlegt að fá smá frí. ég var hreinlega búin að gleyma því hvernig er að vera ein án þess að þurfa að hugsa um neitt annað fólk. það ætti að vera í lögum að mæður og makar fái amk viku á ári í orlof einhverstaðar þar sem enginn nær til þeirra. svo kemur fólk endurnært og afslappað tilbaka tilbúið til að takast á við meiri skammt af raunveruleika hversdagsins.
jemm... hananú

föstudagur, júlí 07, 2006

ókey, ef það er ennþá einhver þarna úti vil ég vinsamlegast biðja ykkur um álit.
semsagt...ég keypti íbúð. henni fylgdi leigjandi með samning til 1.júlí. hún bað um að fá að vera eins lengi og mögulegt væri og ég bauð henni að vera til 1.ágúst. hún hafði greitt tvo mánuði fyrirfram í tryggingu í upphafi sem ég fékk afhenta og við sömdum um að sá peningur færi uppí leigu fyrir júní og júlí.
þann þrítugasta júní hringdi hún í mig og sagðist vera að flytja út og að hún ætlaði að láta mig hafa lyklana eftir helgi. núnú, gott og vel sagði ég og hugsaði mér gott til glóðarinnar með að flytja dótið mitt inn áður en ég fer aftur út núna á laugardaginn... svo líður og bíður.
í dag hringdi ég í hana til að tékka og þá tilkynnti hún mér að íbúðin væri svotil tóm fyrir utan tvo kassa. svo vildi hún fá að vita með endurgreiðsluna á tryggingunni, en hún hefði nú velt fyrir sér að láta mig ekki hafa lyklana fyrr en ég hefði borgað. (sagði að þetta væri ekkert persónulegt en hún gæti varla treyst fólki sem hún þekkir ekki)
ég er nú einhvernvegin þannig karakter að ég fer alltaf í mínus og segi já við öllu þegar ég lendi í ákveðnum týpum af fólki sem gerir mig stressaða. þessi er ein af þeim.
en svo eftir að hafa skellt á fór ég að hugsa... af hverju þarf ég að borga henni til baka þegar hún fer út án uppsagnarfrests? (mér skilst að munnlegur samningur teljist sem ótímabundinn samningur sem þarf amk 3 mán. uppsagnarfrest). af hverju þarf ég að borga henni til baka fyrir mánuð sem hún hafði samþykkt að leigja en ég hefði getað leigt öðrum þennan mánuð ef ég hefði vitað að hún færi? af hverju drífur hún ekki út þessa tvo fjandans kassa svo ég geti fengið íbúðina strax? (ég er búin að segja henni að ég sé að fara út á laugardaginn og þurfi tíma til að athafna mig). af hverju verð ég alltaf eins og aumingjakleina þegar sumt fólk talar við mig og er ákveðið? hvernig get ég aftur gert lífið einfalt og gleðilegt eins og það var áður en hún hringdi í mig? og hvernig get ég leyst þetta án þess að þurfa að hitta hana og líða illa?
(já og hún var semsagt búin um síðustu mánaðarmót að skrá hita og rafmagn af íbúðinni á mig þó svo að tæknilega séð væri hún enn leigjandi og sá kostnaður var ekki hluti af tryggingunni).

hjálp!

sunnudagur, júlí 02, 2006

úff, það er mikið að gera að vera heima. fullt af skemmtilegu frændfólki sem kenndi mér að segja kæmpe spa á norsku. og drekka bjór. ég kunni það samt fyrir, þau kenndu mér það eiginlega ekki en þau eru samt góð í því.
ég er orðin blogglöt. ekki samt alveg eins og systir mín.
sumt fólk er leiðinlegt þegar það er drukkið. ekki þetta fólk en sumt annað fólk.
ég held að ég sé allt í lagi. annars veit ég það ekki því ég er alltaf of full til að sjá það sjálf. svona svipað og að reyna að sjá sig sofa. ekki hægt því þú ert sofandi.
ég græt hrikalega auðveldlega þegar ég kveð fólk. sérstaklega skemmtilegt fólk. samt fór ég ekki að gráta í gær þegar ég kvaddi. fékk samt smá kökk í magann. sem er fyndið því ég var bara búin að hitta þau um fimm sinnum á þessari viku sem þau voru. það er bara leiðinlegt að kveðja fólk sem gefur þér góða strauma og gleði.
mér þykir líka skrýtið að kveðja krakka sem útskrifast úr vinnunni minni. ég á voða erfitt með svona breytingar, þó svo að ég sé þekkt fyrir stórar breytingar. ætli ég myndi ekki greina mig með endalokafóbíu eða kveðjukvíða. ég fæ kökk þegar góð tímabil líða undir lok á sjáanlegan hátt. svona eins og útskrift og kveðjustund.
leitt að mér skuli þykja skammarlegt að gráta fyrir framan fólk. leitt að fólki skuli þykja óþægilegt að umgangast grátandi manneskjur. það fara allir einhvernvegin í hnút eins og það sé óeðlilegt. stundum samt ekki. fer eftir aðstæðum svolítið. ég hugsa samt að krökkunum myndi þykja skrýtið að sjá kennara gráta við útskrift. þess vegna mun ég hlaða klósettpappír í töskuna mína og vera dugleg við að telja allt í kringum mig á meðan á athöfninni stendur. þannig höndla ég aðstæður betur.
jemm...það er nú svo og svo er nú það...

þriðjudagur, júní 27, 2006

mikið er ég löt þessa dagana. er þó að kenna og kenni þar engri um nema mér sjálfri kenni ég mér meins. kenni þeim að leita kennileita.
það er annars blessuð blíðan. skýjað og kalt. ætli það væri mikill bransi í því að flytja inn sól og heita vinda? sum lönd hafa offramleiðslu af slíku og við gætum vel skipt á sól og hita fyrir til dæmis vatn. við eigum vatn.
ég á tvo norska frændur sem eru íslenskir. þeir tala litla íslensku en eru þó skemmtilegir mjög. þeir segja bara jedúddamía og setja puttana upp eins og ítalir. bráðum mun ég eiga norskt frændsystkini sem er rétt tæplega íslenskt í gegnum ömmu sína. svo gæti vel farið í framtíð að ég eignaðist rétt tæplega íslenskt mexíkanskt barnabarn fari svo að afkvæmi mín velji sér þarlenda maka. innst inni við beinið vona ég þó að svo verði ekki. það er sjálfselskan í mér. sú hin sama vildi helst að heimurinn snérist í kringum sjálfa mig, en svo er víst ekki.
ég er með sautján armbönd á handleggjunum. mömmu minni þykir þau ekki sparileg. ég fæ einu sinni á ári skrýtna tilfinningu í úlnliðina og þá tek ég þau af mér í tvo daga. þá finnst mér ég vera berrössuð.
nú langar mig mest til að leggja mig en ég verð víst að halda áfram að taka þátt í samfélaginu aðeins lengur.
svo koma norsku frændurnir með óléttu norsku konuna og íslensku frænkuna sem talar eiginlega bara norsku og norska manninn hennar og dótturina sem er sú eina sem talar eitthvað af viti í íslensku í mat til móður minnar í kveld. þar bý ég í augnablikinu svo ég er að fara í mat líka. það er fínt því mamma er góður kokkur og norska liðið er hinn fínasti félagskapur. gott ef ég get ekki skilið líka hrafl í því sem þau segja á norsku. ef þau tala hægt.

fimmtudagur, júní 22, 2006

rölti í gær niður á gauk á stöng til þess að horfa á mexíkó keppa við portúgal í fótbolta. þar héldu allir með portúgal nema ég sem æpti og gólaði yfir leiknum og var sú eina sem drakk bjór. hinir drukku kaffi og héldu sig á mottunni.
mexíkó tapaði en komst samt áfram í næstu lotu.
ég er ekki mikil fótboltamanneskja en á svona stundum verð ég spennt. mér þykir líka sérstaklega gaman þegar mér líður eins og ég þekki leikmennina persónulega. sú tilfinning kemur til af því að úti í mexíkó snýst öll tilveran um fótbolta þessa dagana og miklar upplýsingar hafa síast inn í minn annars fótboltasnauða heila.
til dæmis veit ég að kvenfólki í mexíkó þykir rafael marquez vera sætastur þó svo að hann hafi orðið óvinsæll í gær eftir að slá hendinni í boltann og verða þar af leiðandi valdur að víti. nú og svo er fonseca kallaður kinkin og er mjög vinsæll svona eins og stórstjarna og hann spilar með liði sem heitir chivas sem er uppáhalds lið allra í minni tengdafjölskyldu. þjálfarinn er frá argentínu og ekki eru allir sáttir við að hann sé útlendingur, hann reykir mikið og hefur verið gagnrýndur af fjölmiðlum fyrir að blóta og vera dónalegur. svo fylgdist ég með tárin í augunum með fréttum þegar faðir markmannsins osvaldo sanchez lést úr hjartaáfalli tveimur dögum fyrir fyrsta leik mexíkó, osvaldo var flogið heim í jarðaför í skyndi og svo aftur út ásamt fullri flugvél af fjölskyldu rétt fyrir fyrsta leikinn. áður en sá leikur hófst færði markmaður íran honum blómvönd og þá fékk öll mexíkanska þjóðin tár í augun.
þá daga sem landsliðið keppir eru allar götur í mexíkóborg fullar af fólki í grænum landsliðsbolum. fánar standa útum glugga á húsum og bílum og þegar liðinu hefur gengið vel heilsast ókunnugir glaðlega og margir bílar flauta til heiðurs landsliðinu. þá er gaman.
þessa dagana snýst eins og áður sagði allt um fótbolta í mexíkó. kókdósir skarta myndum af leikmönnum, þemað í barnaboxum hamborgarastaða er fótbolti, ef þú kaupir brauð eru límmiðar af fótboltakörlum í pakkanum, í töppum á bjórflöskum gætir þú unnið ferð til þýskalands til að sjá liðið keppa, sjampóbrúsar hafa verið framleiddir með fótboltatappa, ef þú kaupir þvottavél gætir þú unnið ferð út, hin ýmsu fyrirtæki auglýsa þjónustu og vörur sínar með tilvitnunum í heimsmeistarakeppnina, símafyrirtæki gefur þér landsliðsboli ef þú kaupir gemsa og forsetaframbjóðendur keppast við að senda leikmönnum velgengniskveðjur.
semsagt, þessir fáu menn sem skipa liðið þurfa að standa undir miklum væntingum.
ekki vildi ég vera þeir.

miðvikudagur, júní 21, 2006

hananú. þá er ég komin til íslands. lenti í morgun en hoppaði yfir eina nótt og er því enn stödd í gær. ringlið farið að segja ansi vel til sín. samt er ég komin á vinnustað og reyni að halda gáfulegum svip.
þegar vélin tókst á loft yfir mexíkóborg og ég sá hana undir mér sem endaleysu varð mér hugsað til þess að þarna niðri einhverstaðar væru börnin mín. það er skrýtin tilfinning. þó svo að ég sé nú frjáls sem fuglinn í tvær vikur líður mér hálf tómlega, mig vantar öll lætin sem fylgja fjölskyldumeðlimunum mínum. kannski er það líka þreytan sem gerir mig meyra og væmna að innan, en svo er nú bara það. núna er nótt í mexíkó og þau eru sofandi. mig dauðlangar að hringja en vil ekki vekja neinn. úff.... mig langar aftur út....

í öðrum óspurðum fréttum langar mig að nefna hvursu gaman ég hef af því að bíða í löngum röðum í loftlausum sal eftir því að komast í vegabréfaskoðun á joð eff ká flugvelli. þegar ég lenti í gærmorgun var eins og ein vél frá hverju einasta heimshorni hefði lent á sama tíma og þarna stóð ég og svitnaði innanum hin ótrúlegustu sýnishorn af fólki í svona eins og einn klukkutíma. þarna var að sjálfsögðu samferðafólk mitt frá mexíkó, hellingur af gyðingum með lítil pottlok eða stóra hatta og tvær krullur, góður slatti af kínverjum, nokkur sólbrennd evrópuungmenni með dredda og bakpoka, arabískar fjölskyldur með huldar konur, indverskar konur í sari með gimsteina á enninu, afrískar konur í svakalega skrautlegum og miklum kjólum og með höfuðvafning í stíl og börn hangandi í slæðum á bakinu, einhverjir ítalskir gígolóar með opið niðrá bringu og gullkeðju í hárunum og svo auðvitað hún ég.
einhverra hluta vegna tók ég mér það hlutverk að benda öllum fjölskyldum með ungabörn á að láta flugvallarstarfsfólk vita af sér til að sleppa við röðina og svo fylgdist ég stolt með þar sem þau stungu sér framfyrir himinlifandi og fegin. fékk ég svo tilbaka falleg þakklætisbros frá viðkomandi. marokkósku konunni sem stóð fyrir aftan mig í röðinni þótti ég samt ekki skemmtileg og sá ég hvar brún hennar þyngdist í minn garð í hvert sinn sem einhver fór framfyrir okkur öll. en ég var samt stolt. sveitt en stolt.

mánudagur, júní 19, 2006

gleðilegan stelpudag.

um daginn fórum við í verslanaklasa og ég stakk mér inn að kaupa flugmiða. á meðan væflaðist makinn með afkvæmin fyrir utan. mér seinkaði aðeins. þegar ég kom út héldu afkvæmin á plastpokum. í þeim voru tveir litlir fiskar og tvær litlar skjaldbökur. andskotans vitleysa.
fiskarnir voru skírðir kinkin og tómas en skjaldbökurnar taketsi og patricia. guð má vita hvaðan afkvæmin fengu þessi nöfn en svo var nú það.
í gærkveldi fundum við patriciu uppi í litla plastbonzaitrénu sem er í búrinu. makinn tók hana niður en hrökk við þar sem hún hreyfðist ekkert og lá sem dauð. makinn úrræðagóður skutlaði henni í klósettið og sturtaði niður. þar sem vatnið sogaði hana nær gatinu sá hann að .... hún hreyfðist víst!
nú er patricia ein einhverstaðar úti í sjó og við með samviskuna í molum.

í fyrramálið legg ég ein af stað heim í smá frí frá fríinu.

miðvikudagur, júní 14, 2006


herra r og lýtalæknaða konan

kona mannsins sem við vorum hjá um síðustu helgi er tuttugu og fimm ára. hann er tuttugu árum eldri. hann á skrjálæðislega mikinn pening eftir að hafa verið spillt og háttsett lögga við landamærin þar sem eiturlyfjum er smyglað til kanans.
nema hvað, hann á villu í acapulco (við hliðina á luis miguel sem er uppáhalds söngvarinn hans elfars), penthouse íbúð í höfuðborginni og risastóran búgarð í queretaro þar sem við eyddum einmitt helginni eins og áður hefur komið fram.
hann (við skulum bara kalla hann herra r.)er lágvaxinn, mjög mörgum kílóum of þungur og á engan hátt aðlaðandi í útliti. gott ef hann var ekki smámæltur í ofanálag.
hún er með litað ljóst hár, gerfineglur, uppskorið nef, uppskorin brjóst, uppskorinn rass (hér þykir nefnilega flottara að hafa stóran og lögulegan rass) og grænar linsur. karlmönnum þykir hún yndisfögur og þeim er nett sama hvort útlitið er náttúrulegt eður ei. hið sama get ég ekki sagt, en hún má eiga það að hún er besta skinn. fordómar mínir höfðu stimplað hana fyrirfram sem gálu og vitleysing, en í eftir allt urðum við hinir mestu mátar eða réttar sagt hinar mestu mætur.
nema hvað, á búgarðinum eru ræktaðar paprikur í öllum litum, risastórar og safaríkar, þar eru líka tré í stórum garði. þangað fórum við að tína ferskjur, plómur, epli, perur, appelsínur, mandarínur og lime. unaðurinn einsamall.
svona garð langar mig í.
núnú, á sunnudaginn keyrðum við svo heim en enduðum á miðri leið í metepec þar sem elsti mágurinn býr í óskaplega vinalegu smáhverfi, eða frekar en hverfi eru þetta 13 hús lokuð af með garði og opnu sameiginlegu svæði. nema hvað, mexíkó átti að keppa við íran í heimsmeistarakeppninni og af því tilefni var kastað upp risatjaldi í garðinum, stórt sjónvarp sett upp, allir fengu landsliðsboli og svo var öskrað og gólað í tvisvar sinnum fjörutíu og fimm mínútur á meðan liðið sigraði 3-1.
eftir leikinn var vippað upp grilli og bjór flæddi uppúr kæliboxum. ansi skemmtileg stemming, enda mikill fótboltaáhugi hér á bæ.
í dag heimsóttum við tengdaafann. makinn minn fann hjá honum gamalt fallegt málverk sem afinn málaði þegar móðir hans dó og hengdi í grafhýsinu hennar. tæpum fimmtíu árum síðar fór hann í kirkjugarðinn og sá að allt hafði verið brotið og mörgu stolið og þá tók hann litla málverkið af maríu mey aftur með sér heim.
nú er málverkið í minni vörslu og mun koma til íslands innan skamms þar sem það mun hljóta sérstakan sess í málverkasafni litlu fjölskyldunnar.

ps. læt fylgja með mynd úr tjaldinu í metepec þegar mexíkó komst yfir 2-1.

mánudagur, júní 12, 2006

ég var að enda við að skrifa langan póst um helgina, búgarðinn með ávaxtatrjánum, ríka svindlarann og lýtalæknuðu konuna hans, fótboltann og fótboltaáhuga landsmanna, en svo gerði ég eitthvað vitlaust og hann dó.
nú ér ég í fýlu.

mánudagur, júní 05, 2006


þetta er hljómsveitin sem lék undir á nautaatinu (þar sem ekkert naut var drepið eða meitt).

þessi með hattinn er leobardo. blindur á hægra auga. góður knapi og góð sál.

þetta er sólarpýramídinn í teotihuacan, borg hinna dauðu.

við fórum semsagt í fullorðinsferð til huamantla, tlaxcala um helgina. börnin urðu eftir hjá ömmu og afa. tíu pör fóru af stað á föstudagsmorgunn. keyrðum með leiðsögumann á milli gamalla búgarða þar sem við fengum að skoða hvar naut til ata eru alin, við sáum gamla hestvagna frá 18. öld og gengum um herbergi með gömlum málverkum af fyrrum eigendum sem horfðu niður á okkur á frekar draugalegan hátt. draugalegheitin mögnuðust svo með braki í gólffjölum og marri í dyrum. litla myrkfælna ég átti bágt, en ég hélt mér dauðahaldi í makann alla leið.
eftir að heimsækja búgarðana fórum við til huamantla þar sem við gistum á búgarði sem hefur verið breytt í hótel. þar var fyllerí og karókí frameftir nóttu.
á laugardaginn eftir morgunmat var farið í útreiðatúr, sem var stjórnað af leo og hinum knöpunum á efstu myndinni. eftir útreiðatúrinn fórum við í lítinn nautaatshring þar sem hljómsveitin á neðstu myndinni spilaði undir, við drukkum bjór og átum meðlæti og allir sem vildu fengu að spreyta sig sem nautabanar (án þess þó að bana neinum). nautið var lítið en þó nóg til að fá hjartað mitt litla hlustaðu á til að reyna að brjótast útúr brjóstinu þegar ég fór niður í hringinn og horfði í augu á nautinu.
nú og svo fór nautið bara heim og við fórum að borða. svo var fyllerí og ruglumbull framundir sunnudagsmorgun. og í gær komum við aftur heim þreytt og ánægð.
ole!!!!

miðvikudagur, maí 31, 2006


þetta er mynd sem ég tók í kirkjubúð.
vantar þig krossfestan krist í fullri stærð fyrir altarið þitt? ef svo er ertu komin á réttan stað...

annars fórum við að skoða pýramída í dag. klifruðum uppá sólarpýramídann. mætti svíum á leiðinni niður. ég sagði ekki hejsan, en ég hugsaði það.
ég hefði verið til í að fá lánaða tímavél í smá stund á meðan ég var þarna. það hefði verið gaman að fá að sjá staðinn eins og hann var upprunalega. aztekar og mannfórnir og gull sem glóir. örugglega eitthvað gott að borða líka.
tengdaafinn sagði mér áðan frá því að fólk á þessum tíma (fyrir komu spánverjana), hafi ekki borðað kjöt nema þá helst af sköllóttu hundunum sínum. þeir höfðu engin dýr til að éta, hesta, beljur, svín eða kindur, þannig að þeir voru mestmegnis ef ekki alveg ávaxta og grænmetisætur.
mexíkanar í dag borða mikið mikið mikið kjöt. svín eru borðuð upp til agna og úr húðinni af þeim er framleitt snakk í poka. svona svolítið eins og kindin á íslandi, en reyndar er hún ekki alveg orðin snakk ennþá, hún er bara lopapeysa og ullarsokkar.

annars er veðrið bara fínt. mun betra en á íslandi samkvæmt mbl.is. mengunin alveg í rólegheitunum og lífið gengur sinn vanagang.
bless á meðan

mánudagur, maí 29, 2006

nú er ferðin búin og hún var svona:
keyrðum í ixtapan de la sal sem er vatnsrennibrautagarður. þar runnum við í vatni frameftir degi og keyrðum svo áfram til taxco. það er bær sem er byggður í fjöllum en húsunum hefur verið klambrað upp á lygilegan hátt. göturnar eru þröngar og liggja upp og niður á milli húsa sem virðast rétt hanga utaní hlíðunum.
þar gistum við.
daginn eftir var förinni heitið til playa ventura sem er pínulítið strandþorp. þar eru ekki hótel eða stórar byggingar heldur bara stráþök sem er tjaldað undir og lítil frekar fátækleg hús. íbúarnir liggja heilu dagana í hengirúmunum sínum og tildæmis nennti maðurinn sem leygði okkur stráþakið sitt ekki að elda ofaní okkur á veitingastaðnum sínum, heldur benti hann okkur á að banka uppá hjá nágrannanum sem fór heim að ná í konuna sína sem svo kom og gaf okkur að borða á meðan maðurinn skokkaði út í búð til að kaupa gosdrykki (þetta var sko veitingastaður).
hugmyndin um að tjalda á ströndinni hljómaði rómantísk og skemmtileg á leiðinni þangað.
þegar við lágum öll fjögur klístruð af salti, sandi og svita inni í tjaldi að reyna að sofna í 35 stiga hita og raka, hætti hugmyndin að virka. svo fór að rigna og allt varð blautara en það var fyrir.
daginn eftir pökkuðum við saman og keyrðum til acapulco.
þar biðum við í einn dag eftir stórfjölskyldunni, en ásamt þeim eyddum við því sem eftir lifði vikunnar við sundlaugarbakka með drykk í hönd, á góðum veitingastöðum og á hótelherbergjum með baðherbergi og loftræstingu.
á kveldin fórum við stóra fólkið út að fá okkur bjór og soleis og á aðfaranótt sunnudags fórum við á risastórt diskótek þar sem við reyndumst aldursforsetarnir.

ég man ekki betur en að við vinkonurnar höfum dansað ansi venjulega þegar við vorum þetta 17-20 ára. núna sá ég ekki eina einustu stelpu dansa öðruvísi en sexí, með mjaðmirnar útum allt og hreyfingar sem myndu sóma sér vel á klámbúllu.
hvað er það?

nema hvað, við komum í stórborgina aftur í gærkveldi og núna erum við að ná okkur.
makinn nældi sér í hálsbólgu, tengdamamman datt framúr rúminu og meiddi sig í hnénu og ég sofnaði í bílnum á heimleiðinni til þess eins að fá hnykk á hálsinn við að keyra í holu og nú er ég óskaplega fín með risastóran hvítan kraga um hálsinn.
svona fór um sjóferð þá...

mánudagur, maí 22, 2006

við erum ekki enn farin á ströndina. höfum verið á dinglumdangli hingað og þangað um bæinn en erum semsagt búin að pakka niður og munum leggja af stað á morgun á rúntinn. gistum heima hjá stærsta bróður í nótt eftir að drekka áfenga vökva, en það er um eins og hálfs til tveggja tíma keyrsla á milli heimila sem þó tilheyra bæði norðurhluta höfuðborgarsvæðisins.
í dag þar sem við keyrðum og keyrðum og keyrðum heimleiðis komst ég ekki hjá því að hugsa hversu svakalega þessi borg er komin langt frá náttúrunni sem hún eitt sinn var. jújú, það er sosum ágætis slatti af trjám hingað og þangað, en þessi tré eru samt eiginlega meira skraut en náttúrufyrirbæri. þau standa ofaní gangstéttum sem eru svo margar orðnar skakkar eftir tilraunir rótanna til að komast upp á yfirborðið.
í flestum hverfum má sjá eitthvað af trjám. í fátækustu hverfunum eru þau fæst og grámyglulegust. þar eru húsin svipuð og flest í zamora michoacan, gráir múrsteinakassar sem hefur verið klambrað upp á ótrúlegasta hátt, eða jafnvel bárujárn og pappakassar þar sem ástandið er allra allra verst.
gömlu hverfin skiptast í tvennt. þeim sem er vel viðhaldið og þau sem hafa fengið að grotna niður í tímans rás. ég bý í einu sem er því miður svolítið að grotna.
í þessum gömlu hverfum eru húsin rosalega falleg, með miklu skrauti í kringum glugga og dyr og fallega rimla fyrir (hér eru nefnilega rimlar fyrir öllum opum þar sem einhver gæti mögulega smeygt sér inn). húsin í miðbænum og þau sem eru frá tímum spánverjanna eru mörg hver ótrúlega flott, með ljónshausa og styttur í kringum glugga og hvaðeina.
þegar ég sé svona falleg hús sem eru að mygla klæjar mig í fingurna af tilhugsuninni um að fá að gera það upp, laga og færa í fyrra horf. úff hvað ég væri til í að stunda slíkt.
nema hvað, gömlu ríkustu hverfin eru gróðursælust. þar er hvert hús virki og lóðirnar stórar. þegar keyrt er um má sjá glitta í mjög fallegar villur á bak við ókleyfa múra og eftirlitsmyndavélar. þar er öllu haldið vel við.
í nýju ríku hverfunum er að finna háhýsi. allt voða bling bling eins og einhver myndi segja. stál og speglar. íbúðirnar eru fyrsta flokks og í bestu byggingunum má finna sundlaug, líkamsræktarsal, skrifstofur, hárgreiðslustofu, snyrtistofu, matvörubúð, veislusal, barnagæslu og ekki má gleyma gífurlegu eftirlits- og öryggiskerfi. margir kalla þetta gullbúrin, en þangað leitar nú fleira og fleira fólk af efri millistétt. svona eitthvað eins og ungt fólk á uppleið sem smalast saman í grafarholtinu.
ef ég hugsa nánar útí það þá er ég stödd í hverfi sem var einu sinni eitt af fínustu hverfunum í borginni. þegar tengdaafinn byggði það bjuggu hér í nágrenninu leikarar og frægt fólk. í næstu götu bjó meira að segja sjálfur fidel castro þegar hann var í útlegð að skipuleggja kúbönsku byltinguna.
hverfið inniheldur slatta af ósmekklegum nýlegri húsum og ég hef tekið eftir því að viðhald eldri húsanna er á uppleið. reyndar má finna góðan helling af húsum sem má laga, en ég hef þó séð það mikið mikið verra. í þessu hverfi er mikið um skakkar gangstéttar.

jamm og jæja.... svo skrifa ég bara meira þegar ég flækist í neti.

fimmtudagur, maí 18, 2006


indíánakona að selja skart í coyoacán í mexíkóborg (sem er hverfið þar sem frida kahlo og diego rivera bjuggu)

á leið til zamora michoacan.

miðvikudagur, maí 17, 2006

keyrðum í gær í rúma 4 tíma til zamora í michoacan héraði. þurrt landsvæði á leiðinni og góður slatti af múrsteinakumböldum sem fólk býr í. sáum mikið af fólki bogra yfir jarðaberjauppskeru og horaðar kýr í skuggum af gráleitum trjám eða risastórum kaktusum.
í norðri ganga karlmenn um með kúrekahatta í kúrekastígvélum og kúrekaskyrtum. konurnar eru með sítt hár.
við eyddum deginum á hóteli undir sólinni í volgri sundlaug. fínt hótel og ágætis miðbær í zamora þrátt fyrir ýmislegt óspennandi.
keyrðum aftur í stórborgina í dag. er að bíða eftir að fá dómínós-pítsu á mótorhjóli. hann hefur 4 mínútur, annars verður hún ókeypis.

mánudagur, maí 15, 2006

hér er voða mikið í gangi vegna forsetakosninganna sem verða 2. júlí næstkomandi. ein kona er í framboði en hún er ekki á meðal þriggja efstu samkvæmt könnunum. einn hinna efstu er andrés manuel lopez obrador, borgarstjóri höfuðborgarinnar. hans slagorð er hinir fátæku fyrst, í allra hag. hann er á vinstri kantinum. efri millistétt og efri stéttir eru ekki hrifnar af honum. mér þykir þó rökrétt hugsun að eyða glæpum og bæta þjóðfélagið með því að veita fátækum menntun og tækifæri. þá verða vonandi færri sem sjá sér hag í að ræna, skemma og meiða. hinir ríku eru hræddir um að peningarnir þeirra fari í subbulýðinn sem hefur ekkert gert til að eiga þá skilið.
um þetta má sosum deila fram og tilbaka og það er einmitt það sem fólk gerir hér þessa dagana.
annars gengur lífið sinn vanagang.
gaurarnir sem hafa verið hér úti á horni síðustu 20 ár að selja góða hirðisdót eru enn á sínum stað, gamli rakarinn á gömlu rakarastofunni í gömlu ljósbláu stuttermaskyrtunni sinni er þar sem hann á að vera, skósmíðahjónin er enn að laga skó og kjöt-, kjúklinga-, grænmetis- og ávaxtasalarnir eru allir á básunum sínum þar sem þeir hafa verið síðan ég kom hingað fyrst fyrir einum 13 árum síðan.
tengdaafi minn hefur ekkert elst síðan ég kynntist honum, hann er að verða 90 ára en hætti nýlega að nota staf. hann keyrir enn, reyndar svolítið eins og mister magú, en hann keyrir samt. sá gamli kemur hingað til tengdamóðurinnar í mat tvisvar í viku. þegar hann kemur segir hann okkur sögur frá því að hann var ungur drengur á árum mexíkönsku byltingarinnar. þegar hann reið um búgarðinn sem frændi hans sá um og hjálpaði indíánunum sem unnu við uppskeruna. hann segir okkur frá foreldrum sínum sem fengu ekki að giftast vegna þess að hún var af sígaunaættum og ekki talin samboðin barnsföður sínum sem var af fínum spænskum ættum. hann lýsir fyrir okkur frændanum á búgarðinum sem var stór og brúnn með mikið yfirvaraskegg, stóra sylgju á beltinu sínu, stóran hatt, stór stígvél og byssu í slíðri.
mér þykir gaman að fá að ferðast aftur í tímann með honum afa. magnað að hugsa til þess að á sama tíma voru ömmur mínar og afar á íslandi að alast upp við gersamlega ólíkar aðstæður.
hérna var þetta meira svona eins og kryddlegin hjörtu. fyrir þremur kynslóðum bróderuðu konur samfaralökin sín fyrir brúðkaupið, karlar komust upp með að taka sér konur í bókstaflegri merkingu og konur eyddu mánuðum og jafvel árum svartklæddar og meira og minna innilokaðar í sorg þegar einhver mikilvægur fjölskyldumeðlimur lést.
mmm.... gott ef ég sé ekki eitthvað sameiginlegt við gamla frostið á fróni.

föstudagur, maí 12, 2006

soddan lúxus að vera í fríi. alltaf hægt að vera að gera eitthvað nýtt. eyddum miðvikudeginum í metepec þar sem elsti bróðirinn býr. borð og stólar úti í garði, mikill matur og mikið um drykki. ósköp kósí og fínt. brann reyndar óvart á öxlunum, veit ekki alveg hvernig því ég reyndi að vera í skugga allan daginn.
í gær ætluðum við með börnin og bróðurson makans í skemmtigarðinn six flags (sem hét áður reino aventura þar sem ég gerðist svo fræg að hitta keikó á meðan hann bjó þar árið 1994). nema hvað, í fréttum var okkur tilkynnt um hrikalegar mótmælagöngur út um allar trissur sem myndu loka öllum helstu götum allan daginn í gær þannig að við ákváðum að fara bara gangandi í næsta almenningsgarð og leyfa krökkunum að sprikla þar.
í dag ætluðum við svo í fánana sex en þá eyddi síðburðurinn nóttinni í hefnd moctezuma þannig að makinn fór einn með frændurna tvo og ég er hér heima með tengdamóður og síðburði á náttfötunum.
hefnd moctezuma er semsagt niðurgangurinn sem aztecakonungurinn sendir ljóshærðum ferðalöngum sem eiga leið um lönd hans, en hann er að hefna sín fyrir yfirtöku spánverjana á konunsdæmi sínu á sínum tíma.
það hefur farið framhjá honum að þó svo að dóttirin sé ljós yfirlitum er hún samt ein af samlöndum hans og á rætur að rekja í eina áttina til indíána.
annars er gaman að því að börnin mín geta rakið ættir sínar til vestfjarða, danmerkur, lækjargötu, gyðinga, spánverja, sígauna, frakka og indíána.
nema hvað, á morgun er ég að fara í kvennamorgunmat heim til láru frænku, á sunnudaginn ætlum við að reyna að fara að skoða uppstoppuðu fólks sýninguna þarna frá þýskalandi (hún er semsagt staðsett hér í augnablikinu), á mánudaginn förum við norður til guanajuato með hector mági, komum heim á miðvikudag, og förum svo til acapulco 24. maí.
ójá. margt að gera í fríinu.

miðvikudagur, maí 10, 2006

vaknaði í morgun með bólgna ökkla, hné, úlnliði, eyru, augnlok, neðra bak, hendur, tær og olnboga. svo er kláði í öllu draslinu bara svona rétt til að toppa ástandið.
í dag er mæðradagurinn hér úti og voða veisluhöld. og ég svona eins og uppblásinn grís.
mér skildist á lækninum sem skoðaði mig áðan að ég sé eiginlega bara of fín fyrir umhverfið. daman vön tæru lofti, unaðslegu vatni, ómengaðri fæðu og hreinu umhverfi.
andskotans stælar í líkamanum mínum....

mánudagur, maí 08, 2006

lenti í barnaafmæli í gær. jedúddamía. einhver arturo sem varð 7 ára og amma hans er vinkona ömmu minna barna þannig að okkur var boðið þó svo að hvorki ég né dóttir mín höfum séð hann fyrr. fór með síðburðinn, en frumburðurinn er of þroskaður að eigin mati fyrir svona lagað.
veislan var í leigðum sal. veggirnir voru málaðir með ýmsum disney fígúrum og það voru rennibrautir, kastali, gryfja með svömpum til að hoppa ofanaf kastalanum, lítil borð og stólar fyrir foreldra. í einu horninu var vifta sem náði þó ekki að Þurrka svitann af mér, en ég hef aldrei áður eytt heilum degi með blautar rasskinnar (plastsetan á stólunum hjálpaði heldur ekki til).
nú og þarna hlupu sveittir krakkar upp um allt og mín þar á meðal. tónlistin dunaði og yfirgnæfði næstumþví krakkaskarann. ætli það hafi ekki verið um 100 eða 150 manns á svæðinu.
allir fengu að éta tacos og fótboltavallarköku eftir að trúðarnir komu í heimsókn og tvær pinjötur voru slegnar í klessu. eftir 4 klukkustunda hamagang og læti vorum við leystar út með pokum fullum af nammi.
nú situr innkaupapoki með nammi uppi í skáp og ég er alveg að losna við suðið úr eyrunum.

má ég þá frekar biðja um kökur og meððí í rólegheitunum heima svona eins og ég geri á íslandi.

föstudagur, maí 05, 2006

þá er litla familían semsagt komin aðeins hærra en hvannadalshnjúkur. krakkarnir eru hin ánægðustu og við líka. litlar tæplega 4 ára frænkur hafa verið óaðskiljanlegar síðan við lentum í gærkveld, önnur talar spænsku og hin svarar á íslensku en einhvernvegin skilja þær hver aðra fullkomlega. (reyndar virðist vera að byrja að hrikta í stoðunum einmitt núna...)

annars langar mig mest til að segja ykkur frá honum claudio.
hann heitir claudio torres velazquez og fæddist í mars 1982 í 300 húsa þorpinu tlapitzalapan. hann er með svart burstaklippt hár, brúna húð, frekar grannur og lágvaxinn og fyrir ofan munninn er hann með hár og hár á stangli sem eru að reyna að líkjast yfirvaraskeggi. indíánum vex lítið líkamshár, en á móti verða þeir ekki sköllóttir.
hann sat fyrir framan okkur í flugvélinni frá new york til mexíkó. á einhverjum tímapunkti flugferðarinnar kom hann til okkar og bað okkur um að hjálpa sér við að fylla út eyðublöð fyrir tollinn vegna þess að hann kann hvorki að lesa né skrifa, enda hefur hann alltaf þurft að vinna og hefur ekki verið í skóla. það er hvort eð er ansi lítið af menntun að fá í þorpinu þó svo að frambjóðendur lofi bæjarbúum alltaf gulli og grænum skógum rétt fyrir kosningar.
hann sagðist hafa verið rúm 2 ár í bandaríkjunum, en þangað fór hann til að vinna fyrir sér og freista gæfunnar. hann hafði aldrei flogið áður, en hann hafði borgað einhverjum gaur 1800 dollara fyrir að hjálpa sér yfir landamærin. hann gekk í 22 klukkustundir frá mexíkó til texas. endaði svo sem aðstoðarmaður á veitingastað í new york.
hann var stressaður yfir því að komast í gegnum vegabréfaskoðun vegna þess að hann á ekkert vegabréf. hann var með snjáð fæðingarvottorð og fölsuð persónuskilríki. hann var á leiðinni heim af því að pabbi hans lést og nú verður hann að taka við af honum og vinna fyrir móður sinni heima í tlapitzalapan. hann sér ekki fram á að fara aftur úr landi.
það eina sem er hægt að gera í þorpinu hans er að rækta kaffi, appelsínur, mangó eða aðra ávexti og grænmeti. það skiptir víst ekki miklu máli hvaða tegundir hann ræktar, þær eru allar illa borgaðar. mikil vinna fyrir sama og engan pening. ástæðan fyrir því að hann fór í burtu til að byrja með.
nema hvað, við fórum samferða claudio í gegnum flugvöllinn, leiðbeindum honum og biðum eftir því að hann kæmist í gegnum vegabréfaskoðunina. hann komst í gegn.
eftir að við lentum átti hann eftir að koma sér á rútubílastöð og sitja svo í rútu í 7 klukkutíma.
á leiðinni út af flugvellinum rétti makinn minn honum nafnspjald með tölvupóstfanginu sínu. á íslensku benti ég honum á að maðurinn kynni ekki að lesa, en claudio brosti bara og sagðist hvort eð er ekki vita hvað tölvupóstur væri.

þriðjudagur, maí 02, 2006

á morgun leggjum við land undir fót og leggjum af stað til le mexique.
þegar þangað verður komið ætla ég að reyna að vera dugleg að komast í netið til að skrásetja ferðir mínar sléttar og jafnvel dæla inn einhverjum ljósmyndum.

úff, nú er ég komin með fiðring í maga og stressræpu.

föstudagur, apríl 28, 2006

horfði á tvo tíma af samsæriskenningum um ellefta september í gær. samsæriskenningasmiðir virka yfirleitt frekar klikkaðir, svona svipað og ofsatrúarfólk, að mínu mati.
ég er samt svo meðvirk að lendi ég í ágætlega vel rökfærðum samsæriskenningum gæti ég alveg fallið fyrir þeim. skipti svo um skoðun um leið og ég heyri góð rök gegn kenningunni. og snúa sér í hring.

hvernig er hægt að hætta að vera meðvirkur? eða er nauðsynlegt að hafa meðvirkt fólk í heiminum og á ég bara að vera áfram svona?

fimmtudagur, apríl 27, 2006





What type of Fae are you?
enn styttist í brottför og ég er búin að velja efnisminnstu fötin mín ofaní ferðatösku sem liggur bara og bíður. við erum öll orðin spennt, enda langt síðan börnin hittu hina fjölskylduna sína og það verður víst ýmislegt á dagskrá við komu okkar út. meðal annars er nánasta fjölskyldan (tengdaforeldrar, 3 stk. mágar, 3 stk. svilkonur og 4 stk. börn) á leið ásamt okkur í vikuferð til acapulco. going loco down in acapulco. skildi reyndar aldrei hvernig þeim tókst að láta þetta ríma, en hvað um það... þetta verður ansi fínt, flott hótel og piña colada og soleis.
merkilegur andskoti hvað þessi vika virðist annars ætla að vera lengi að líða...

annars er munnlegt próf á dagskrá í dag. merkilegt nokk þá er ég farin að skilja hvað þau segja og þau virðast meira að segja vera farin að skilja mig og umræðuefnin eru komin á mun hærra plan en þau voru í upphafi. og allt þetta á aðeins 4 mánuðum. gjöri aðrir betur.
blessaðir snillingarnir.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

í gær bloggaði ég eins og ég ætti lífið að leysa. svo fékk ég villumeldingu og allar mínar hugsanir hurfu eins og dögg fyrir sólu. það tók mig þónokkra stund að ná heilli hugsun aftur inn í höfuðið á mér.
já ég veit að ég hefði átt að gera þetta í word fyrst. fyrr má nú um kenna en af læra segi ég nú bara.
hér í vinnunni er allt að verða vitlaust, nema auðvitað nemendurnir sem verða gáfaðri með degi hverjum. við hömumst við að fylla þau af fróðleik ýmiskonar og þau hamast við að kvarta yfir því hvað er mikið að gera. hnuss segi ég nú bara. þetta á að heita undirbúningur undir háskóla þar sem hver og einn fær að hanga í lausu lofti algerlega á eigin forsendum og hluti þjálfunar þeirrar sem ég þykist vera að veita felst í því að brúa bilið á milli grunnskóla og háskóla. fólk þarf að kunna að bera sig eftir björginni.
ólafur reið með björgum fram.

rétt rúm vika í brottför. sjiiiiiiiiit hvað ég hlakka til.

mánudagur, apríl 24, 2006

bloggerinn eitthvað að stríða mér í dag...
hvað felst í því að gifta sig?
á hvaða tímapunkti ,,á" að gifta sig?
breytist eitthvað?
verður allt í sambandi við giftinguna að vera óhemju rómantískt?

arg!

miðvikudagur, apríl 19, 2006

það er eitthvað við prump og kúk.... átta mig ekki almennilega á hvað það er sem gerir fyrirbærin svona óendanlega fyndin. það væri nú sennilega hið skemmtilegasta mál að rannsaka rætur rassaboruhúmors. eða kannski ekki. ætli það myndi ekki bara drepa fyndnina niður. tjah... maður spyr sig...
ég var sko að lesa kúkasögu eftir nýjasta meðlim tenglalistans míns sem heitir hugi og ég neita því ekki að tár runnu niður kinnar mínar tvær (andlitskinnarnar).

annars er ég að dunda mér við að lesa draumalandið, sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð.
ansi skemmtilegar pælingar og röksemdafærslan er alveg að virka fyrir mig. ætli allir séu sammála?
mín komin aftur á vinnustað. já og ég skrifa viljandi allt með lágstöfum, það er sko stíll. svona halldórslaxnesstælarnir mínir.
nema hvað... styttist í langa sumarið og mér hlakkar svog til að komast úr landi eins og eitt ögnarblik. það eru víst einar þrjátíu gráður á áfangastað. áætlað er að keyra um landið, líklega niður til guatemala, en mér skilst að í chiapas héraði sé hitinn um og yfir fjörutíu gráðurnar.
púff segi ég og svitna í handarkrikunum.

frímínútur búnar. farin að vinna.

fimmtudagur, apríl 13, 2006

nú er litla gula húsið ekki lengur mitt. búin að afhenda lykla og alles. þar fór það.
litla familían flutt inná innlendu foreldrana. það er alltaf ákveðið rask þrátt fyrir að í þessu tilfelli séu foreldrarnir hreint ágætis eintök. það er bara alltaf eitthvað við að flytja inná aðra....þið vitið hvað ég á við.
en jæja, ferðatöskuástandið á sosum ekki eftir að vara lengi, ekki nema fram í ágúst (upphrópunarmerki).
djöfull á ég eftir að vera orðin þreytt á að eiga ekki fastan samastað. en þó er ekki svo illu aflokið að ekki fáist eitthvað eigi svo alslæmt, en við munum semsagt eyða sumrinu í föðurlandi föður barna minna og föðurfjölskyldu þeirra og þar verður nú engin þörf á föðurlandi enda hitinn þetta í kringum þrjátíu stigin (gef og tak).
nema hvað. nú er ég á leið í bíó.
góðar stundir.

föstudagur, apríl 07, 2006

fimmtudagur, apríl 06, 2006

fór í fyrsta skipti í jógatíma um daginn. komst að því að ég er stirð, þunglamaleg og hef mjög takmarkað jafnvægi. fékk svo harðsperrur af öllu draslinu.
tíminn sjálfur var reyndar ósköp fínn. enginn svona hamagangur eins og sá sem verður alltaf til þess að ég forðast líkamsræktartíma. svo var líka skemmtilegt að heyra konuna í fremstu röð prumpa með reglulegu millibili.
varð reyndar sjálf að halda aftur af mér á köflum, enda ýmiskonar óvenjulegt álag í gangi þegar legið er á bakinu með hnén á enninu og hendurnar undir rassinum.
er að hugsa um að skreppa í nokkra tíma í viðbót, en ef ég finn engan mun á stirðleika, þunglamalegheitum og jafnvægi eftir....skulum við segja....mánuð, þá er ég hætt.

kynskiptingar eru meiri konur en konur. (sem kemur málinu sosum ekkert við en ég er bara að hugsa....)

þriðjudagur, apríl 04, 2006

hann fór í veiðiferð í gær, hann wolfgang bóndi
hann skildi húsið eftir autt og okkur hér
við erum glöð á góðri stund og syngjum saman
vísuna sem (lala) kenndi mér.
köttur klukka hreindýr svín og endur
fyrir löngu
hófu saman búskap hér og sjaaaaaá
jorolorolúhúhú, jorolorolúhúhú, mjá mjá mjá mjá ahaha
-ll-


ég er með vöðvabólgu og ætla í nudd.
skyldi vöðvabólgan vera tengd niðurstöðum færslunnar hér á undan?
ég spyr

sunnudagur, apríl 02, 2006

það eru til ýmsar gerðir af fólki.
sumir eru alltaf í vörn og upplifa stanslaust að verið sé að traðka á rétti þeirra. það fólk rífst oft og á til að blokkerast á röksemdir og sjónarhorn annarra. vill líka helst tala um sitt og sína frekar en að hlusta á aðra.
önnur gerð fólks reynir að vera ósýnileg. það er fólk sem brosir oft litlu svona ,,allt er fínt, ekki taka eftir mér" brosi. fær fjólubláa flekki um allan líkamann sé athygli beint að þeim en hefur oftar en ekki fjandi gáfulega hluti fram að færa og semur dúndurgóð ljóð.
ein týpan er þessi svali sem höndlar athyglina vel, sækist eftir henni, er alltaf kaldur sem klaki og er haldinn óbugandi vissu um eigið ágæti og góðar gáfur. þessi týpa á oft til hnyttin tilsvör við öllum fjandanum en á til að rugla orðatiltækjum og málsháttum a'la bibba á brávallagötunni. gæti verið lélegur í stafsetningu
grúskarinn er týpa sem á í ástarsambandi við bækur og upplýsingabrunna ýmiskonar. hann veit margt um fáránlegustu hluti og er mjög vinsæll í spurningalið. hann er góður spjallari þegar rætt er um hans áhugasvið, en kann oft á tíðum betur við sig í fortíðinni en nútíðinni.
enn önnur gerð fólks er þessi sem er alltaf að reyna að þóknast öðrum. þessi týpa segir yfirleitt aldrei nei við neinu og fer stundum útí hinar undarlegustu aðgerðir í þeim tilgangi að hjálpa, geðjast og redda öðrum. þessi týpa er heldur ekki góð í að sækjast eftir hjálp og henni þykir óþægilegt að láta hafa fyrir sér. fólki í þessum flokki þykir erfitt að lenda í deilum og hún er vís með að láta vaða yfir sig til þess að forðast vandræði og vesen. hún fær líka sting í hjartað þegar hún upplifir eða hana grunar að einhverjum líki ekki við hana og þann sting getur verið erfitt að losna við.
hún þarf að læra að brynja sig og hleypa ekki hvaða rugli sem er inná sig.
einhverra hluta vegna held ég að ég tilheyri þessari síðastnefndu týpu. hreint út sagt ekki auðveld staða.

föstudagur, mars 31, 2006

einhverntíman væri gaman að skoða viðbrögð fólks ef að ég klóraði mér í rassinum (innanundir buxunum) og þefaði svo vel og vandlega af fingrinum á mér á meðan verið er að tala við mig.
hehehe... eða kannski fyrir framan hóp af fólki.
svo væri hægt að þurrka puttann í peysuna og stinga honum beint upp í nefið og tengja slummuna beint niður í munn (og horfa rangeygð niður á meðan). þurrka afganginn af horinu í ermina og klóra sér svo lengi og vel í eyranu áður en ég skoða hvað ég fann þar og hreinsa svo undan nöglinni með framtönnunum. smjatta svo aðeins og brosa.

góða helgi

þriðjudagur, mars 28, 2006

það er yndislegt að eiga fólk í heiminum sem alltaf er hægt að tala við eins og ekkert hafi í skorist, jafnvel þó að einhver ár líði á milli endurfunda eða spjallrásaspjalla (þegar einhver er í útlandi).
það er góð tilfinning að þykja vænt um fólk og vita að einhverjir muna alltaf eftir þér og hugsa til þín endrum og sinnum og vilja þér allt hið besta.
það er gott að eiga fjölskyldur hingað og þangað.
ég hef kynnst helling af fólki á mínum rétt rúmu 30 árum, en það fólk sem hefur á einhverjum tímapunkti verið hluti af lífi mínu er mjög margt horfið úr því. þeir sem taka ekki lengur pláss í daglega lífinu en taka ennþá pláss í hjartanu og í góðu minningunum er fólkið sem skiptir máli í minni tilveru. og að sjálfsögðu líka fólkið sem tekur plássið í daglega lífinu, en það er sér kapítuli útafyrir sig.

nú er ég að kafna úr væntumþykju...

sunnudagur, mars 26, 2006

nú lítur út fyrir að við hin fjögur fræknu munum eignast húsnæði handan við götuhornið eða niðri á klapparstíg.
það eina sem ég tengi við klapparstíg er rakarastofa, en nú hýsir hann víst trendí fyrirbæri eins og dauðabúðina, grænmetismatarbúllu og sirkus. sem minnir mig á það... einu sinni fyrir langa langa löngu var ég beðin um að kyssa dauðahönnuðinn, af mjög auðútskýranlegum ástæðum sem ég mun hinsvegar ekki útskýra einmitt núna en þeir sem muna umræður aftur í tímann gætu skilið.
nema hvað, ég neitaði að kyssa manngreyið, ólíkt öðrum stúlkum í sömu sporum, þannig að ég fékk séns á því að þykjast bara kyssa hann og henda svo nærbuxum í gólfið.
ég efast einhvernvegin um að ég gæti leikið í ástarsenu án þess að fá kaldan svita, aulahroll helvítis og skjálfta í ískalda útlimina. það yrði þá senuhelvítið...

nema hvað, hefst ný lota á morgun og er það vel. það er óhollur andskoti að hafa of mikinn tíma til að vera í líkamsræktarsölum. þá staðreynd verð ég stöðugt sannfærðari um, en eins og staðan er í dag geng ég um sem væri ég spastísk og tel mig heppna ef ég dett ekki niður tröppurnar heima hjá mér (sem ég þjáist við að fara upp og niður oft á dag). ástandið má rekja til lærvöðvaþjálfunar sem fór úr böndunum.
annars gaman að segja frá því að á föstudaginn var ég næstumþví búin að hrynja niður helling af tröppum og beint í flasið á sveittum bubba morthens. þá var ég semsagt nýbúin að gera fjárans fótaæfingarnar, klöngraðist svo upp í herbergi til að gera magaæfingar, en þar sem ég stóð aftur upp til að koma mér í sturtu mætti segja að fyrrnefndar æfingar hafi sparkað inn (svo ég þýði beint úr engilsaxnesku).
núnú, ég lagði auðvitað af stað niður tröppurnar óafvitandi um dauða lærvöðvanna, en þegar ég byrjaði að labba niður fann ég hvernig lærin á mér fóru í verkfall og ég varð eftir í lausu lofti fótalaus. þá komu handleggsvöðvarnir sér vel, en mér tókst að grípa í handriðin og brölta niður eins og lömuð manneskja sem er að reyna að byrja aftur að ganga. þetta gerði ég á eins óáberandi hátt og mér var mögulegt, en ég vonaði þá og vona enn að viðstaddir hafi frekar tekið eftir feita karlinum í rauða bolnum sem missti af hlaupabrettinu og skaust á ógnarhraða afturfyrir sig og klesstist á spegilinn.
hehehehehe.... hann var fyndinn.

talandi um fyndið... verð að stela brandaranum hans þórðar því hann er svo góður. en hann er semsagt svona:

a dyslexic man walked in to a bra...

miðvikudagur, mars 22, 2006

einu sinni ekki alls fyrir slöngu vann ég á skrifstofu. það var reyndar aldrei alveg minn tebolli en ég lærði þó ýmislegt á veru minni þar...sem er reyndar önnur saga.
en semsagt þegar ég var að vinna þarna lék ég mér stundum að því að lesa nöfn í þjóðskránni, enda mikil áhugamanneskja um nöfn og agötu christie bækur, en það er önnur saga.
áðan fann ég miðana þar sem ég hafði dundað mér við að skrifa niður nokkur þeirra nafna sem mér þóttu merkileg, skrýtin, furðuleg, fyndin eða bara gaman að segja þau oft.
hér með mun ég skrá á spjöld alheimsvefjarins þau nöfn sem ég skrifaði hér um árið á litla post-it miða:
sturlaugur, ína, engilbjört, engill, engiljón, engilbertína, engilráð, enóla, sívar, dagmann, karel, albína, guðgeir, kristbergur, ásólfur, gógó, metta, hjálmdís, húni, kallý, gunnrún, sumarrós, rósant, rósanna, rósar, rósberg, rósbjörg, rósfríð, rósi, rósinkar, rósinberg, rósíka, róslín, róslind, rósný, runný, helma, valþór, friðný, styrr, ríkey, jónheiður, bjarnþrúður, randíður, sölvey, hugborg, víoletta, jósavin, danival, þórvör, mörk, eyðfríð, ástmar, fura ösp, æska, æsgerður, lofthildur, loftveig, logey, þorbera, ædís, álfdís, friðbert, magný, hallfreður, dagbjartur, ótta, uni, njála, íren, líneyk, arngunnur, bergrós, ljósbrá, júníus, ölvir, metúsalem, kúld, hrollaugur, bertil, dúfa, sigurhjörtur, bjarmi, jóel, ýrar, bersi, alvar, marmundur, hörn, elínbergur, reynar, jarl, márus, abelína, aðalrós, njóla, nýbjörg, odda, októ, salmanía, ölveig, öndís, þiðrandi og ögmundína.

og hananú

þriðjudagur, mars 21, 2006

fékk þetta í tölvupósti áðan. hringdi heim til nöfnu minnar til að ganga úr skugga um sannleikann í málinu. hann er algjör og skipið leggur af stað á sunnudaginn næstkomandi. skipið heitir hringur og liggur við grandagarð nálægt vélsmiðjunni gjörva (var mér sagt).
hér kemur svo bréfið sem ég fékk:

Kæru vinir og félagar, þannig er að það er að fara skip á vegum fjölskyldu
minnar til Namibíu eftir ca. viku.

Þar er mikil fátækt og atvinnuleysi. Kristján sonur minn er búin að vera
þar í tæpt ár núna, vinnur ásamt pabba sínum og bróðir að útgerð.

Þeir eru feðgar að sigla skipi þangað um helgina, eins og áður sagði. Eftir
að hafa gengið um þetta stóra skip galtómt, hvort við hérna heima gætum ekki
nýtt þetta tækifæri og sent eitthvað með þessu skipi.

Að höfðu samráði við feðgana, þá er það helst eitthvað TENGT BÖRNUM OG KONUM
SEM KÆMI SÉR BEST. ÞAÐ ERU NOKKRAR KONUR ÞARNA AÐ REYNA AÐ KOMA AF STAÐ
LEIKSKÓLA FYRIR BÖRN. þÆR HAFA FENGIÐ HÚSNÆÐI, EN ALLT ANNAÐ VANTAR.

NÚ SENDI ÉG YKKUR SEM ÉG ER MEÐ Á PÓSTLISTA HJÁ MÉR, ÞENNAN TÖLVUPÓST, MEÐ
VON UM GÓÐ VIÐBRÖGÐ.

ÞIÐ LEIKSKÓLAKENNARAR SITJIÐ KANNSKI UPP MEÐ EITTHVAÐ Í GEYMSLUNUM Í
LEIKSKÓLANUM OG/EÐA VITIÐ UM EITTHVAÐ SEM HÆGT VÆRI AÐ NÝTA.

PAPPÍR, LITIR OG Þ.H. VÆRI LÍKA VEL ÞEGIÐ.

SAUMAVÉLAR, ER ÞAÐ SEM KONURNAR DREYMIR HELST UM OG EITTHVAÐ HANNYRÐA TENGT.

ÁGÆTU VINIR, LÁTIÐ NÚ ÞESSI BOÐ GANGA ÁFRAM FYRIR MIG Í VIKUNNI OG SÖFNUM Í
SKIPIÐ.

SKIPIÐ LIGGUR Í REYKJAVÍKURHÖFN, FYRIR ÞÁ SEM HAFA TÖK Á AÐ KOMA HLUTUM
ÞANGAÐ.

EÐA HAFIÐ SAMBAND VIÐ MIG OG ÉG GET NÁLGAST HLUTI HJÁ YKKUR.

HAFIÐ SAMBAND, BESTU KVEÐJUR, MAJA KRISTJÁNS. SÍMI: 664-5845 OG
HEIMASÍMI: 555-3487

fimmtudagur, mars 16, 2006

nú bið ég um álit ykkar merkisfólks og svör við eftirfarandi spurningum er spyr ég mig þessa dagana.

hversu alvarlegt mál er ritstuldur?
er hann léttvægari ef stolið er af netinu?
er meira í lagi að taka efni af einum síðum en öðrum?
er hann í lagi á einhverjum sviðum samfélagsins, s.s. í grunnskóla og framhaldskóla?
hvenær er ritstuldur ekki ritstuldur?

eru til ritstultur eða ritsultur?

sunnudagur, mars 12, 2006

lokapróf á morgun. svo hægist um hjá mér næstu tvær vikurnar og þá get ég einbeitt mér að húsaskoðun.
fjölskyldan mín öll (og þá á ég við minn eigin afleggjara, foreldra mína, systur og mág), er að fara að flytja í apríl og maí. það verður nú meiri endemis vitleysan get ég sagt ykkur, enda skyldmenni mín ekki þekkt fyrir að henda dóti.
systir mín á meðal annars hið ótrúlegasta smádót og furðulegheit sem hún hefur sankað að sér síðan hún var...tja... tveggja ára, og það er sjaldgæft að hún hendi. reyndar gerðist það hér um árið að hún hélt garðsölu ásamt geðóðum handrukkara í garðinum á bakvið hjall nokkurn sem ég bjó í, en í þeirri sölu seldi hún hina ýmsu muni úr æskusafni sínu. nokkra þeirra á ég sjálf reyndar í dag því ég tímdi ekki að hún myndi selja þá...en það er önnur saga. ég leyfi mér þó að efast um að hún eigi eitthvað minna dót í dag en hún átti fyrir garðsöluna atarna.
núnú og foreldrar mínir eru annað keis útafyrir sig. þar sem þau hafa reynt að flytja sem minnst síðustu tuttuguogsex árin, hefur dótið eins gefur að skilja hrannast upp, enda nóg af geymsluplássi á þeim bænum.
móðir mín á tildæmis hið ótrúlegasta safn sænskra bóka um líkamsmeðvitund og allskyns skandinavískrasjúkraþjálfaraheimspeki, en hún bliknar þó við hlið föðurins sem fær taugakippi í andlitið ef minnst er á að henda einhverju af því sem finnst í skúmaskotum heimilisins (þó svo að hann hafi verið búinn að steingleyma tilveru hlutanna þangað til spurt er hvort megi henda).
það er þessvegna sem enn má finna uppi á lofti mao tse tung complete works, stalin complete works, karl marx og frederic engels complete works, húa kúa feng complete works (eða ekki), serki frá marokkó, ýmis dreifirit ungra kommúnista frá sjöunda áratugnum, röndóttar skyrtur og fleira og fleira. já og svo má ekki gleyma sjóreknu netakúlunum sem systirin hirti fyrir einhverjum áratug síðan til að nota í listaverk sem varð aldrei til og eru enn inni í skáp hjá foreldrunum rétt hjá kassanum með fötunum sem mér þóttu flott þegar ég var með duran duran plaggöt í herberginu mínu.

sökum einhverrar andlegrar vanstillingar hef ég skuldbundið mig til að hjálpa til við yfirvofandi flutninga umfram mína eigin.... það verður hægara sagt en gert.

þriðjudagur, mars 07, 2006

skoðaði húsnæði í gærkveld. mér líður enn eins og ég sé skítug eftir að hafa verið þar inni. dvergskrattinn sem tók á móti okkur hafði ekki einusinni haft fyrir því að sturta niður kúkahlussunni sem flaut í klósettinu áður en hann sýndi okkur heimili sitt (ef heimili skal kalla). þegar ég hugsa um baðherbergið atarna fæ ég svona óhreinsandrúmsloftstilfinningu niður í háls og lungu. bleh, ðach, fjúff, ullabjakk...
ótrúlegt hvað sumt fólk getur verið mikill viðbjóður.

nema hvað... fór með síðburðinn í þriggjaoghálfsársskoðun í morgun. hún er stór og gáfuð og fín eins og mamma sín...hehe... frumburðurinn er lagður af stað í langa tannréttingaför sem mun kosta blóð, svita, tár og mikla peninga.
um daginn borgaði ég tæpar níuþúsundkrónur fyrir að láta segja mér að við þyrftum að koma aftur og láta taka ný mót. þá sveið mig í olnbogann (eins og þeir segja í heimalandi makans).
nú og svo er sá stutti að fara að fá einhverja svaðalega græju sérsmíðaða í hollandi til þess að toga fram á honum neðri kjálkann svo að það verði eitthvað samræmi í þeim, en drengurinn bítur beint upp í góminn á sér án nokkurrar fyrirstöðu, sem er eins og gefur að skilja slæmt og ansi óþægilegt.
nema hvað... þar sem ekki er verið að troða spöngum uppí barnið er hann víst ekki hæfur til endurgreiðslu frá tryggingastofnun. hollensk activator-græja eru ekki spangir og þá get ég bara etið það sem úti frýs.
eitthvað þykist ég vita um að lýtalækningar fáist niðurgreiddar af ríkinu séu þær skilgreindar sem nauðsynlegar aðgerðir en fegrunaraðgerðir fá ekki endurgreiðslu.
þessi skilgreining er ekki til staðar í tannréttingum þannig að fái manneskja sér spangir bara til þess að vera aðeins sætari er það endurgreitt að einhverju leyti. barn sem á eftir að vera í vandræðum með skoltinn á sér alla ævi verði hann ekki lagaður, en fær eitthvað annað en spangir skal bara vera svo heppið að eiga efnaða foreldra takk fyrir kaffið.

asni, kúkur, fáviti, piss.